Stjórnarandstaðan hefur lokið fundi sínum þar sem ákveðið var að leggja fram tillögu um vantraust, þingrof og kosningar. Þingflokkar ríkisstjórnarinnar hafa einnig setið á fundi í morgun.
Klukkan ellefu byrjar svo þingflokksformannafundur, þar sem öll forystan, að undanskildri forystu Sjálfstæðisflokksins, mætir. Klukkan 11:45 hefst fundur í forsætisnefnd Alþingis og klukkan tólf verður fundur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Á dagskrá þess fundar eru „aflandsfélög, hæfi forsætisráðherra og fleira."
Þingfundur hefst svo klukkan 15 á óundirbúnum fyrirspurnum. Til stóð að bæði Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson væru á staðnum til að svara fyrirspurnum, en Bjarni missti af flugi í Bandaríkjunum og er því ekki væntanlegur til landsins fyrr en á morgun. Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er í leyfi.