„Ég ætla ekki að draga fjöður yfir að þessi staða er mjög þung fyrir ríkisstjórnina,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra við mbl.is um stöðu ríkisstjórnarinnar. Hann vill ekki tjá sig um það hvort hann telji að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sé hæfur til að sitja áfram í stól forsætisráðherra. „Ég mun ekki tjá mig um stöðu ríkisstjórnarinnar eða einstaka ráðherra á meðan ég á eftir að ræða við þingflokkinn um þetta,“ segir hann.
Bjarni segir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins skynji að þungt hljóð sé í fólki eftir umfjöllun um Panama-skjölin og tengsl íslenskra ráðamanna við skattaskjól. Hann er enn staddur á Flórída, þar sem hann hefur verið í fríi yfir páskana. Seinkun í innanlandsflugi í Bandaríkjunum í gær varð til þess að hann missti af flugi heim til Íslands. Hann kemur til landsins í fyrramálið.
Þingmenn flokksins eru nú að leggja mat á stöðuna og Bjarni segir mikilvægt að málin verði rædd við Framsóknarflokkinn um stöðuna. Hann ætlar að tala við forsvarsmenn Framsóknarflokksins seinna í dag. Bjarni segir að það sé erfitt að tjá sig um vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar þar sem hún er ekki komin fram enn.
Bjarni fundaði með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í morgun og mun gera það aftur seinni partinn í dag.