Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ætlar að flýta heimför sinni til Íslands í ljósi umfjöllunar heimspressunnar um Panamaskjölin. Hann er staddur erlendis í einkaerindum en er væntanlegur til landsins snemma í fyrramálið.
Samkvæmt upplýsingum frá forsetaembættinu liggur ekki ljóst fyrir hvert framhaldið verður, hvort Ólafur muni funda með ríkisstjórninni eða ávarpa þjóðina.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur hins vegar seinkað heimför sinni. Hann átti að koma heim fyrir þingsetningu í dag en kemur ekki fyrr en á morgun. Ástæðan er sú að hann missti af flugi frá Bandaríkjunum til Íslands, eftir að innanlandsflugi hans í Bandaríkjunum var seinkað. Bjarni er búinn að vera á Flórída í páskafríinu.