Þingsályktunartillaga um vantraust á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og ríkisstjórn hans, þingrof og nýjar kosningar hefur verið lögð fram. Í henni stendur: „Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á forsætisráðherra og ríkisstjórn hans. Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið og efnt til almennra þingkosninga svo fljótt sem við verður komið."
Flutningsmenn tillögunar eru fjórir: Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. Hana má lesa hér.
Kjarninn greindi frá því í gær að stjórnarandstaðan ætlaði að leggja fram tillögu um vantraust, þingrof og kosningar á Alþingi. Líklegast yrði það gert í dag. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar funduðu í morgun og þar var komist að niðurstöðu um að leggja tillöguna fram.