Þingflokkur Framsóknarflokksins styður Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins og fráfarandi forsætisráðherra, eftir atburði dagsins. Þingflokkurinn llýsir ánægju með „þá virðingarverðu afstöðu formannsins sem felst í því að hann skuli vera reiðubúinn að stíga þetta skref til að gera ríkisstjórninni kleift að vinna áfram að þeim mikilvægu verkefnum sem nú liggja fyrir.” Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokknum. „Formaður, varaformaður og aðrir þingmenn flokksins eru sammála um að mikilvægt sé að halda áfram að upplýsa um þann fjölda fyrirtækja í eigu Íslendinga sem skráð eru erlendis til að tryggja að allir standi skil á sínu til samfélagsins eins og formaður flokksins og kona hans hafa gert,” segir í tilkynningunni.
Frosti segir Sigmund hafa gert mistök
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Framsóknarflokksins, segir í stöðufærslu á Facebook að með afsögn sinni hafi Sigmundur Davíð skapað forsendur fyrir áframhaldandi samstarfi ríkisstjórnarflokkanna og ríkisstjórninni færi til að ljúka þeim mikilvægu verkefnum sem hún hefur unnið að. Afsögn hans beri vott um fórnfýsi. Frosti undirstrikar þó að Sigmundur hafi gert mistök með því að tengjast félagi á Tortóla og einnig að upplýsa ekki um hagsmuni félagsins gagnvart slitabúum föllnu bankanna.
Sigmundur segir Ólaf Ragnar ljúga
Þá kom önnur tilkynning frá forsætisráðuneytinu þar sem fram kom að á fundi forseta Íslands og forsætisráðherra hafi sá síðarnefndi upplýst forseta um stöðu mála í stjórnmálum hér á landi og greint jafnframt frá áformum sínum um að leggja til við forseta að þing yrði rofið og boðað yrði til almennra alþingiskosninga ef í ljós kæmi að meirihluta stuðningur við ríkisstjórnina væri brostinn.