Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt af sér embætti. Þetta gerðist á borgarstjórnarfundi rétt í þessu. Í sérstökum Kastljósþætti sem sýndur var á sunnudag kom fram að Júlíus Vífill ætti vörslusjóð á í Panama.
Júlíus kvaddi sér hljóðs á í upphafi borgarstjórnarfunds í morgun og sagði að ekki væri um félag að ræða heldur sjóð, sem m.a. færi ekki með fasteign og ekki mætti veðsetja eignir hans, samkvæmt heimildum Kjarnans. Þrátt fyrir þetta ætlaði hann að segja af sér embætti. Í kjölfarið þakkaði hann öllum fyrir gott samstarf, sérstaklega starfsfólki borgarinnar og borgarfulltrúum.
Júlíus gaf út yfirlýsingu vegna málsins í síðustu viku þar sem hann sagði að sjóðurinn hafi verið stofnaður í svissneskum banka til að mynda eftirlaunasjóðinn sinn, en að honum hafi verið ráðlagt að skrá stofnun hans í Panama. Sjóðurinn lúti svipuðu regluverki og sjálfseignastofnun. Aflandsfélagið heitir Silwood Foundation. Nú hefur hann vikið vegna málsins.
Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar samþykkti í morgun tillögu þess efnis að aflandsfélagaeign borgarfulltrúa verði könnuð til hlítar. Á fundinum var fjallað um siðareglur borgarfulltrúa og reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar. Í forsætisnefnd sitja Sóley Tómasdóttir, fulltrúi Vinstri grænna, Halldór Auðar Svansson. fulltrúi Pírata og Elsa Hrafnhildur Yeoman fulltrúi Bjartrar framtíðar. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúar þau Magnús Már Guðmundsson fulltrúi Samfylkingar, Jóna Björg Sætran fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina og Halldór Halldórsson fulltrúi Sjálfstæðisflokks.
Auk Júlíusar Vífils var fjallað um aflandseign tveggja annarra núverandi og fyrrverandi borgarfulltrúa í þættinum. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina, átti hlutdeild í aflandsfélagi sem var í fasteignaþróunarverkefni í Panama. Áheimasíðu Reykjavik Media kemur fram að Sveinbjörg sé skráð fyrir tveimur félögum í umsjá panamísku lögfræðistofunar Mossack Fonseca; 7Callinvest sem skráð er á Tortóla og Ice 1 Corp sem var skráð á Panama. Sjálf hefur hún í störfum sínum í borgarstjórn ítrekað lýst sig andvíga því að Reykjavíkurborg eða fyrirtæki á hennar vegum eigi aðild að fyrirtækjum á aflandseyjum. Hún tilkynnti fyrr í dag að hún myndi óska eftir því að vera í leyfi þar til að rannsókn á aflandsfélagaeign hennar lýkur.
Þá var fjallað um málefni Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og eiginmanns hennar, Hallbjarnar Karlssonar verkfræðings. Þorbjörg og Hallbjörn eru skráð fyrir félaginu Ravenna Partners á Tortóla. Allt hlutafé Ravenna var skráð á þau hjónin í ágúst 2005. Félagið var alla tíð eignalaust. Þorbjörg Helga var kjörin í borgarstjórn 2006 og sat sem borgarfulltrúi til ársins 2014.