Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra óskaði eftir því við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að hann veitti honum heimild til að rjúfa þing. Ólafur Ragnar sagðist ekki tilbúinn til að veita honum slíka heimild þar sem forsætisráðherra náði ekki að sannfæra forsetann um að Sjálfstæðisflokkurinn væri samþykkur slíku. Þetta kom fram á skyndilegum blaðamannafundi sem nú stendur yfir á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar hefur þess í stað ákveðið að eiga fund með Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, síðar í dag. Eftir atvikum mun hann ræða við formenn eða leiðtoga annarra flokka.
Ólafur Ragnar sagði það ekki við hæfi að forsetinn væri dreginn inn í þá atburðarrás sem hófst með einhliða yfirlýsingu Sigmundar Davíðs á Facebook í morgun um að hann væri tilbúinn í þingrof og kosningar með þeim hætti sem forsætisráðherra hafði lagt upp. Eftir að hafa rætt við Sigmund Davíð í síma í gær höfðu þeir ákveðið að hittast klukkan 13 í dag. Í morgun klukkan 11, eftir fund sinn með Bjarna Benediktssyni, hafi forsætisráðherra farið fram á að fundinum yrði flýtt. Ólafur Ragnar frestaði því fundi sínum með forseta kýpverska þingsins sem fyrirhugaður var og hitti Sigmund Davíð þess í stað. Þar var beiðni hans um að forseti veitti honum heimild til að rjúfa þing, annað hvort strax eða í náinni framtíð, yrði veitt. Því hafnaði Ólafur Ragnar.
Sigmundur Davíð sagði í morgun að ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins treysti sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum hennar myndi hann rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta. Þetta kom fram í Facebook-færslu sem hann setti inn rétt í þessu. Hann sagðist stoltur af verkum sínum og óhræddur við að leggja þau í dóm kjósenda hvort sem það gerist nú eða síðar.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í fréttum RÚV að Sigmundur Davíð hefði ekki borið þessar hugmyndir undir þingflokk flokksins áður en hann birti yfirlýsingu sína. Það hefði hann kannski átt að gera. Karl staðfesti þannig að Sigmundur Davíð bar það ekki undir sinn eigin þingflokk að hann vildi rjúfa þing og boða til kosninga, eins og hann tilkynnti að hann væri reiðubúinn að gera á Facebook í morgun.
Sigmundur Davíð vildi ekki ræða við fjölmiðla þegar hann fór af fundinum.