Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lagði fram tillögu við þingflokk sinn í dag um að hann stigi til hliðar sem forsætisráðherra og að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokks, taki við. Sigmundur Davíð ætlar að vera áfram formaður flokksins. Málið hefur verið kynnt Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, en samþykki Sjálfstæðisflokksins fyrir þessari ráðstöfun liggur ekki fyrir. Þetta tilkynnti Sigurður Ingi blaðamönnum eftir þingflokksfund Framsóknarflokksins í dag.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundaði fyrr í dag og Bjarni Benediktsson hélt í kjölfar þess fundar á fund forseta Íslands. Afstaða Sjálfstæðisflokksins til þess að Sigurður Ingi verði forsætisráðherra í ríkisstjórninni liggur ekki fyrir. Bjarni ætlar að ræða við fréttamenn þegar fundi hans með forseta Íslands lýkur á eftir.
Fyrr í dag fór Sigmundur Davíð á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og bað um heimild til þingrofs. Því hafnaði forsetinn þar sem forsætisráðherra tókst ekki að sannfæra hann um að Sjálfstæðisflokkurinn myndi fallast á hugmyndina. Þegar þeirri bón Sigmundar var hafnað fór Sigmundur Davíð á þingflokksfund og lagði til að Sigurður Ingi tæki við sem forsætisráðherra. Hann ætlar hins vegar sjálfur að sitja áfram sem formaður Framsóknarflokksins.