Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur nú tjáð sig í fyrsta sinn opinberlega frá því að greint var frá því að hann myndi hætta sem forsætisráðherra. Það gerir hann á Facebook-síðu sinni til þess að tjá sig um frétt Vísis frá því fyrr í dag um að Anna Sigurlaug Pálsdóttir eiginkona hans hafi pantað sér geimferð.
Hann segir að það virðist orðið ljóst að „það séu engin takmörk fyrir því hversu langt menn eru tilbúnir að ganga í súrrealískum „fréttaflutningi“ af mínum nánustu. Hvar endar eiginlega vitleysan ef hún takmarkast ekki einu sinni við gufuhvolf jarðar?“ skrifar Sigmundur Davíð. „Í frétt á Vísi er fullyrt að eiginkona mín hafi pantað sér ferð út í geim! Ég þurfti að lesa þetta fimm sinnum og athuga jafn-oft hvort ég væri að lesa pistil á grínsíðu eða fréttasíðu. Eins og nærri má geta er fréttin bull frá upphafi til enda eins og reyndar ýmislegt annað sem fram kemur á þeim miðli sem Vísir vitnar til.“
Sigmundur Davíð segir að sumir blaðamenn og miðlar hafi flutt gagnrýnar en sanngjarnar og réttar fréttir af gangi mála að undanförnu. „Það hafa hins vegar ekki allir gert. Eftir að æsingurinn varð sem mestur hafa rangfærslurnar, getgáturnar og útúrsnúningarnir um málið verið svo miklir (á sumum stöðum) að það hefur ekki verið vinnandi vegur að reyna að leiðrétta það.“
Hann segir að eiginkona hans og fjölskylda hafi mátt þola mikið síðustu vikur og það hafi vakið hjá honum óhug hvernig fólk sem aldrei hafi hitt „þessa yndislegu konu er reiðubúið að tjá sig um hana.“