Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, studdi tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um að þing verði rofið og kosningar boðaðar án tafar.
„Þegar þingflokksfundur var haldinn eftir fund Sigmundar á Bessastöðum gaf ég út að ég mundi styðja þá tillögu að flokkarnir endurnýjuðu umboðið,” segir Vigdís í samtali við Kjarnann. „Ég hefði talið það langbesta kostinn að rjúfa þing og efna til kosninga, á þeim forsendum hver staðan er og þeirrar háværu kröfu. Það hefði verið eðlilegast í stöðunni.”
Eins og komið hefur fram veitti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Sigmundi Davíð ekki þetta umboð.
Furðar sig á ráðherravali flokksins
Sigurður Ingi Jóhannsson, verðandi forsætisráðherra, tilkynnti á blaðamannafundi í gær að Lilja Alfreðsdóttir yrði næsti ráðherra Framsóknarflokksins í ríkisstjórn. Lilja hefur unnið sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, furðar sig á þessu, þó að hún undirstriki að Lilja sé mjög fær kona með yfirgripsmikla þekkingu og að henni lítist vel á að hún komi inn í ríkisstjórn.
„Það er bara annar hlutur heldur en hvernig raðað er á ráðherralista,” segir Vigdís. Hefðin sé að oddvitar flokka í kjördæmum landsins fái ráðherrasæti.
Þrír oddvitar Framsóknar án ráðherrastóls
„Eftir daginn í dag verða þrjú kjördæmi sem eiga ekki oddvita í ríkisstjórninni: Reykjavík norður og suður og svo norðaustur kjördæmi eftir að Sigmundur hættir,” segir hún. „En það er tillaga stjórnar flokksins að hafa þetta með þessum hætti.”
Spurð hvort hún hafi sóst eftir ráðherraembætti í gær segist Vigdís ekki formlega hafa gert það, ekkert frekar en eftir kosningarnar 2013.
„Þessi óskrifaða regla liggur svo sem í augum uppi, þannig að ég held að þingmenn þurfti ekki að minna á sig. Þetta eru almennar leikreglur flokkanna,” segir hún. „En þó að ég geri athugasemd við þetta ráðherraval, þá óska ég Lilju alls hins besta í störfum, þar sem ég er jákvæð og bjartsýn að eðlisfari.”