Rösklega fjórðungur ber mjög eða fremur mikið traust til nýrrar ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar, samkvæmt nýrri könnun frá Maskínu. 65-66% segjast bera fremur eða mjög lítið traust til ríkisstjórnarinnar, þar af 54-55% mjög lítið traust. Könnunin hófst um leið og ný ríkisstjórn tók við völdum í gær.
Innan við 20 prósent segjast bera traust til Sigurðar Inga Jóhannssonar sem forsætisráðherra. Tveir af hverjum þremur treysta honum frekar eða mjög lítið, þar af treystir helmingur þjóðarinnar honum mjög lítið. 26% segjast bera frekar eða mjög mikið traust til Bjarna Benediktssonar en hátt í 62% segjast bera fremur eða mjög lítið traust til hans.
Því betur sem fólk hefur fylgst með atburðum síðustu daga að eigin sögn, þeim mun minna traust ber það til ríkisstjórnarinnar og forystumanna hennar.
Eingöngu í tveimur hópum bera fleiri mikið traust til nýrrar ríkisstjórnar en lítið traust. Það er meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. 81% kjósenda Sjálfstæðisflokksins ber mikið traust til nýju ríkisstjórnarinnar og 91% kjósenda Framsóknarflokksins. Karlar bera meira traust til ríkisstjórnarinnar en konur. Tæp 32% karla og rúmlega 19% kvenna bera traust til ríkisstjórnarinnar.
Vantraustið á nýja ríkisstjórn er mest hjá yngsta aldurshópnum, undir 25 ára. Þar bera ríflega 80 prósent lítið traust til ríkisstjórnarinnar. Vantraustið minnkar með aldrinum og elsti aldurshópurinn, 55 ára og eldri ber mest traust til ríkisstjórnarinnar. Í þeim hópi treysta 34% ríkisstjórninni mikið en 56% lítið.
Traustið á ríkisstjórnina er minnst og vantraustið mest í Reykjavík. Þar treysta 17 prósent ríkisstjórninni og 75 prósent vantreysta henni. Það er líka minnst traust til ríkisstjórnarinnar meðal þeirra tekjulægstu.