Vantrausttillaga stjórnarandstöðunnar á ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, sem tók til starfa formlega í gær eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hætti sem forsætisráðherra, var felld nú rétt í þessu.
Meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins telur 38 þingmenn af 63 en stjórnarandstaðan hefur 25 þingmenn.
Til að fá tillöguna samþykkta þurfti stjórnarandstaðan að ná 32 atkvæðum, en það tókst ekki.
Allir þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði á móti, 38, en allir þingmenn stjórnarandstöðu með, samtals 25.
Greidd voru atkvæði sér um vantraust og svo um þingrof og nýjar kosningar. Í þeirri atkvæðagreiðslu fór 37-26, vegna þess að Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greiddi atkvæði með tillögu stjórnarandstöðunnar.
Unnur Brá hafði raunar áður lýst því yfir að henni þætti að það ætti að kjósa strax. Hún sagði í ræðu sinni að það ætti ekki að óttast kosningar, og það væri hennar flokki og þjóðinni allri til heilla.