Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi, segir að leggja eigi áherslu á að vanda til verka, þegar kemur að endurskipulagningu bankakerfisins. Ekki eigi að einkavæða bankanna hratt, og reyna eftir fremsta megni að fá að kerfinu erlenda banka með gott orðspor.
Þetta er eitt af því sem fram kemur í tilkynningu sjóðsins, sem kynnt var á fundi í dag og lesa má um í frétt Kjarnans, en sendinefndin hefur verið hér á landi undanfarna daga.
Sendinefndin segir að stjórnvöld þurfi að taka mið af því að ríkið eigi nú stóran hluta í bankakerfinu, rúmlega 98 prósent hlut í Landsbankanum, Íslandsbanka að fullu og 13 prósent í Arion banka.
„Stefna stjórnvalda þarf að taka mið af vaxandi þátttöku ríkissins í bankakefinu. Það er mikilvægt að ríkið, sem meirihlutaeigandi í tveimur bönkum og með umtalsverða hagsmuni í þeim þriðja, fari fram af ábyrgð. Gæta þarf að því að arðgreiðslur skerði ekki um of lausafé bankanna. Ekki á að hraða einkavæðingu um of en leggja þess í stað áherslu á að finna trausta kaupendur, helst erlenda banka með gott orðspor. Jafnframt ætti að huga að því að efla lagaheimildir og sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins samhliða vinnu við þróun áhættumats og bættu bankaeftirliti með breytingum á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Aðkomu tveggja opinberra aðila að eftirliti með bönkum ætti einnig að endurmeta, ekki síst vegna samræmingarvanda sem kann að koma upp, þar sem laust fé og eigið fé eru sín hvor hliðin á sama peningi. Ein leið til hagræðingar gæti verið að sameina regluverk og eftirlit með bönkum innan Seðlabankans en að Fjármálaeftirlitið annist eftirlit með öðrum fjármálastofnunum og mörkuðum ásamt neytendavernd. Slíka tveggja turna lausn og aðrar mögulegar útfærslur þyrfti að kanna betur,“ segir sendinefndin.