Ríkisstjórnin ætlar að klára lista sinn yfir þau mál sem hún vill koma í gegnum þingið nú í vikunni. Þetta kom fram á fundi leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna með Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra í morgun. RÚV greinir frá.
Það var samdóma álit formanna stjórnarandstöðuflokkanna að hægt væri að treysta því að kosið verði í haust. Farið hafi verið yfir stöðuna og áætlanir ríkisstjórnarinnar. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að það hafi verið góður andi á fundinum og hann hafi sýnt áhuga Sigurðar Inga á því að breyta um takt í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, tekur í sama streng og segir stóru fréttirnar vera samráð við stjórnarandstöðuna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir að Sigurður Ingi hafi fullvissað þau um að kosið verði í haust og að lögð hafi verið áhersla á að eiga samtal við stjórnarandstöðuna. Nú sé boltinn hjá ríkisstjórninni. Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, segist taka orð forsætisráðherra fyrir því að hann ætli sér að skapa traust milli stjórnar og stjórnarandstöðu og einnig við þjóðina. Það sé gott að það eigi sér stað gott samtal á milli.
Þingfundur hefst á Alþingi klukkan 13.30 í dag, og eru þingfundir áætlaðir á hverjum degi í þessari viku.