Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, ætlar að láta fara sérstaklega yfir hagsmunaskráningu þingmanna og framkvæmd þeirra reglna. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna, á Alþingi í dag.
Svandís spurði Einar hvernig hann hygðist bregðast við mismunandi túlkun þingmanna á reglum um það hvernig skrá skuli hagsmuni þingmanna. Þá spurði hún hvort hann telji að reglur hafi verið brotnar þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kaus að skrá ekki eingarhlut sinn í Wintris þegar hann var kosinn á þing 2009 og hvort hann telji að Bjarni Benediktsson hafi brotið reglur þegar hann skráði ekki eignarhlut sinn í félaginu Falcon.
Einar sagðist ekki geta kveðið upp úr um spurningarnar varðandi Sigmund Davíð og Bjarna, en komi ekki auga á það að reglurnar um hagsmunaskráningu hafi verið brotnar. Hins vegar þurfi að „fara yfir þessi mál betur.“
Hann sagði að hitt væri hins vegar hárrétt og kjarni málsins „að við höfum orðið vör við það á síðustu vikum að uppi er mismunandi skilningur einstakra háttvirtra þingmanna og fleiri aðila á því nákvæmlega hvað reglurnar um hagsmunaskráninguna þýða.“
Vandinn sé margþættur, meðal annars að þegar reglurnar um hagsmunaskráningu voru settar hafi ekki fylgt nein greinargerð til að útskýra þær frekar. Það sé auðvitað ekki gott að mismunandi skilningur sé uppi um það hvað reglurnar þýði.
„Þingmenn eru í mjög sérstakri stöðu. Þingmenn sækja sitt umboð, sitt vald, til almennings og eiga þess vegna að standa reikningsskil gagnvart almenningi.“