Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur birt staðfestingu frá endurskoðanda Ernst & Young, þess efnis að hann hafi staðið skil á öllum sköttum og gjöldum, vegna viðskipta félagsins Falson & Co.
Þetta kemur fram á Facebook síðu Bjarna.
Mér finnst bæði eðlilegt og skiljanlegt að gerðar séu miklar kröfur til forystumanna í stjórnmálum. Hér fylgir því jafnframt yfirlit yfir allar skattskyldar tekjur þau ár sem ég hef gegnt ráðherraembætti,“ segir Bjarni orðrétt í færslu á Facebook síðunni.
Auk þess eru birtar upplýsingar um skatta hans frá því hann tók við ráðherraembætti, árið 2013. Það er endurskoðendastofan Ernst & Young sem hefur tekið þetta saman, en upplýsingarnar ná yfir skattskyldar tekjur og greiddan tekju- og fjármagnstekjuskatt. Ekki eru tilteknar skuldir eða eignir.
Þau Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra Framsóknarflokksins, hafa öll birt upplýsingar úr skattframtölum sínum. Eygló skráir sínar upplýsingar í hagsmunaskráningu á vef ráðuneytisins, Árni Páll birti á heimasíðu sinni og Katrín skráði sínar upplýsingar í hagsmunaskráningu á vef Vinstri grænna.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segjast í samtali við Kjarnann ætla að birta sínar upplýsingar á næstu dögum.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, birti afrit af skattframtali sínu og eiginkonu sinnar á Facebook-síðu sinni í október í fyrra. Framtölin voru fyrir árin 2012 og 2013 og voru birt vegna frétta Stundarinnar af tengslum Illuga við fyrirtækið Orka Energy.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í viðtali við Ísland í dag fyrir tíu dögum síðan að það gæti vel verið að það sé tímabært fyrir þau hjónin að opna bókhald sitt upp á gátt: „Í þessu tilviki held ég að það sé orðið að sjálfsagðri kröfu að hún geri grein fyrir þessu,“ sagði hann. Þá ættu líka aðrir að gera slíkt hið sama.