Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að bjóða sig fram til þings á ný. Þetta tilkynnti hann í færslu á Facebook-síðu sinni fyrir skömmu.
Einar segir að hann hafi tekið þessa ákvörðun með fjölskyldu sinni eftir vandlega íhugun. Hann hafi fengið mikla hvatningu undanfarna daga og vikur um að gefa kost á sér til endurkjörs. Hann sé ákaflega þakklátur fyrir þann hlýhug og traust en það hafi ekki breytt niðurstöðu hans um að hætta. 25 ár séu liðin frá því að hann tók fyrst sæti sem aðalmaður á Alþingi. „25 eru drjúgur tími í starfsævi hvers manns. Tíu sinnum hef ég tekið þátt í kosningabaráttu í sæti þingmanns eða varaþingmanns. Því tel ég tímabært að láta nótt sem nemur og gefa ekki kost á mér til endurkjörs,“ skrifar Einar.
Hann segir að það sé ánægjulegt að finna að Sjálfstæðisflokkurinn sé í sókn á ný, þótt sannarlega hafi gefið á bátinn upp á síðkastið.
„Nú er komið að tímamótum í lífi mínu. Beinni þátttöku minni í stjórnmálum lýkur senn. Við tekur nýtt tímabil sem ég veit ekki hvað muni bera í skauti sínu. Það leiðir tíminn einn ljós.“