Bankasýsla ríkisins hefur tilnefnt sjö aðalmenn og tvo varamenn í kosningu til stjórnar Íslandsbanka fyrir aðalfund bankans. Aðalfundurinn verður haldinn þriðjudaginn 19. apríl næstkomandi.
Eftirtalin hafa verið tilnefnd sem aðalmenn í stjórn Íslandsbanka: Friðrik Sophusson, Anna Þórðardóttir, Auður Finnbogadóttir, Árni Stefánsson, Hallgrímur Snorrason, Heiðrún Jónsdóttir og Helga Valfells. Friðrik og Helga eru þau einu sem halda áfram stjórnarsetu frá núverandi stjórn bankans.
Ríkið á allt hlutafé Íslandsbanka.
Heiðrún Jónsdóttir er í dag meðal annars stjórnarformaður Íslenskra verðbréfa og segir á Dv.is, að hún muni þurfa að segja sig úr þeirri stjórn enda er ekki heimilt að sitja samtímis í stjórnum tveggja fjármálafyrirtækja. Þá segir enn fremur að líklegt sé að Auður Finnbogadóttir geti ekki gegnt stjórnarformennsku í Samkeppniseftirlitinu eftir að hún muni taka sæti í stjórn Íslandsbanka.