60,7% segjast vera ánægð með störf forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, samkvæmt nýrri könnun frá MMR. Könnunin var gerð dagana 4. og 5. apríl, mánudag og þriðjudag þegar hann synjaði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, um þingrof. Hún tekur því á engan hátt til ákvörðunar forsetans í gær um að bjóða sig fram aftur.
Ánægja með störf forseta hefur ekki mælst meiri síðan árið 2013. 15% þeirra sem svöruðu sögðust vera óánægð með störf forsetans en 60,7% voru ánægð með störf hans, sem var aukning sem nemur um 13 prósentastiga aukningu frá síðustu könnun sem var gerð 18. desember.
Ánægja með störf Ólafs Ragnars er afar mismunandi eftir stuðningi við stjórnmálaflokka, en 99% þeirra sem sögðust myndu kjósa Framsóknarflokksins ef kosið væri í dag eru ánægð eða mjög ánægð með störf Ólafs Ragnars. 27% þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkinguna voru ánægð með forsetann. 79 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru ánægðir með störf forsetans, 38% kjósenda VG, 39% kjósenda Bjartrar framtíðar og 54% kjósenda Pírata.
Minni stuðningur er við forsetann meðal háskólamenntaðra en annarra.
Svarfjöldi í könnuninni var 987 einstaklingar, og 98% tóku afstöðu til spurningarinnar. Vikmörk í könnun sem þessari geta verið allt að 3,1%.