Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, það er A og B hluta, var neikvæð um tæplega fimm milljarða í fyrra, en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 7,4 milljarða króna.
Meginástæða þess er hækkun á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga sem nema 14,6 milljörðum króna. Þær skuldbindingar komu þó ekki til greiðslu á síðasta ári heldur er um skuldbindingar til næstu ára og áratuga að ræða, en gjaldfærslan er á rekstrarreikningi ársins í fyrra.
Aðrar ástæður eru fjármagnsgjöld Orkuveitu Reykjavíkur vegna gjaldfærðra gangvirðisbreytinga, alls 10,2 milljarðar, sem til komin eru vegna „áhrifa lækkunar álverðs en að hluta til kemur tekjufærður gengismunur á móti – vegna veikingar evru,“ segir í tilkynningu á vef borgarinnar.
Rekstrarniðurstaðan er því tæplega 12,4 milljörðum króna lakari en gert var ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 4.600 mkr sem er 12.683 mkr lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir sem skýrist eins og áður sagði, aðallega af hækkun lífeyrisskuldbindinga.
Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í árslok samtals 525 milljörðum króna, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru ríflega 300 milljarðar. Eigið fé borgarinnar nam um 224 milljörðum króna en þar af nam hlutdeild meðeigenda 12,7 milljörðum, að því er segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar.
Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum, og er grunnreksturinn. Um er að ræða Aðalsjóð, þ.e. rekstur fagsviða, Eignasjóð og Bílastæðasjóð.
Til B-hluta teljast sjálfstæð dótturfyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Orkuveita Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgar¬svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.