Hrannar Pétursson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra. Hann hóf störf í utanríkisráðuneytinu í dag.
Hrannar tilkynnti það í mars síðastliðnum að hann hygðist bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Fyrir sléttri viku síðan greindi hann hins vegar frá því, á fundi forsetaframbjóðenda í Háskólanum í Reykjavík, að hann væri hættur við það vegna þess að Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti, hefði ákveðið að bjóða sig fram á ný.
Hrannar er 42 ára gamall. Hann er félagsfræðingur, fæddur og uppalinn á Húsavík. Hann var um tíma sjónvarpsfréttamaður fyrir tæpum tveimur áratugum en hefur síðan mest starfað við upplýsinga- og samskiptamál, fyrst hjá ISAL sem á og rekur álverið í Straumsvík og síðar fjarskiptafyrirtækinu Vodafone þar sem hann stýrði einnig mannauðs-, markaðs- og lögfræðimálum. Þá starfaði hann sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu þar til í nóvember 2015, þar sem hann sinnti verkefnum fyrir ráðuneytisstjóra, en rak svo eigið upplýsinga- og samskiptafyrirtæki.