Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, stofnaði fyrirtækið Greenlight Holding Luxembourg S.A. á Tortólu í gegnum lögfræðistofuna Mossack Fonseca árið 2000.
Stundin greinir frá þessu í dag, en upplýsingar um félagið eru í Panamaskjölunum sem Reykjavík Media hefur aðgang að og vinnur nú úr ásamt Stundinni, Kjarnanum og RÚV.
Benedikt og eiginkona hans og móðir Bjarna, Guðríður Jónsdóttir, sátu sjálf í stjórn félagsins og fengu bæði prókúruumboð yfir félaginu. Það að þau hafi setið sjálf í stjórninni er nokkuð frábrugðið fyrirkomulaginu á flestum fyrirtækjunum í Panamaskjölunum.
Hætt var að greiða gjöld af félaginu til Mossack Fonseca árið 2010 og félagið var afskráð í lok þess árs. Ekki liggur fyrir hvers vegna félagið var stofnað, hvaða eignir það átti eða hvaða skattalegu áhrif félagið hafði, ef nokkur.
Bjarni átti sjálfur 40 milljóna hlut í félagi sem skráð var á Seychelles-eyjum, Falson og Co., sem var einnig að finna í Panamaskjölunum. Hann hafði áður neitað því að eiga, eða hafa átt, peninga í skattaskjólum. Bjarni sagði félagið hafa verið stofnað í kring um félag sitt og félaga sinna til að kaupa fasteign í Dubai, sem varð þó aldrei af. Hann svaraði fyrir þetta svo að hann hafi haldið að félagið hafi verið skráð í Luxemborg, en ekki á skattaskjólseyjunum. Félagið var sett í afskráningarferli 2009.