Kristján Gunnar Valdimarsson, lektor í innlendum og alþjóðlegum skattarétti, hagaði störfum sínum í samræmi við lög. Þetta er niðurstaða Háskóla Íslands á aðkomu hans að þeim málum sem greint var frá Í Kastljósþætti 3. apríl síðastliðinn. Háskólinn ákvað að skoða hvort tilefni væri að taka til athugunar störf Kristjáns Gunnars og hvort að störf hans hafi falið í sér brot á skyldum hans gagnvart skólanum. niðurstaða skoðunarinnar var að ekki sé tilefni til að ráðast í formlega athugun. Frá þessu er greint á mbl.is.
Þar segir einnig að skólinn hafi leitað eftir athugasemdum frá Kristjáni Gunnari áður en tekin var ákvörðun um að ráðast ekki í formlega athugun á málum hans.
Í Kastljósþættinum, sem var sá sami og opinberaði aflandsfélagaeign nokkurra kjörinna fulltrúa, var m.a. birtust tölvupóstur frá Kristjáni Gunnari þar sem hann óskar eftir því að fá umboð fyrir aflandsfélagaþjónustu lögfræðistofunnar Mossack Fonseca á Íslandi. Þessi tölvupóstur var sendur í október 2013. Í frétt Reykjavík Media um málið segir m.a.: „ Í skeyti sem hann sendi til Panama kynnti hann sig sem lögfræðing og lektor við Háskóla Íslands og minnti á að hann hefði í störfum fyrir Landsbankann átt í viðskiptum við fyrirtækið. Kristján kvaðst hafa umbjóðendur sem vildu stofna félag í Panama – en óskaði jafnframt eftir að geta stofnað félög á fleiri aflandssvæðum."
Kristján Gunnar var einnig milliliður Júlíusar Vífils Ingvarssonar, fyrrum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, varðandi uppsetningu félags sem hann stofnaði í Panama og við stofnun bankareikninga í Sviss.