Eiður Smári Guðjohnsen er í 23 manna lokahópi íslenska landsliðsins í knattspyrnu fyrir Evrópumótið í knattspyrnu sem kynntur var rétt í þessu. Rúrík Gíslason, Gunnleifur Gunnleifsson, Viðar Örn Kjartansson og Sölvi Ottesen sem allir hafa verið mikið í hópnum á undanförnum árum eru ekki í lokahópnum. Þeir fjórir eru þó á sex manna lista sem verður til taksef eitthvað kemur upp. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var í höfuðstöðvum KSÍ í dag til að tilkynna lokahópinn fyrir Evrópumótið.
Þar var einnig tilkynnt að Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, mun hætta með liðið að loknu Evrópumótinu í Frakklandi í sumar líkt og áður hafði verið ákveðið. Lagerbäck hafði gefið hugmyndinni um að halda áfram byr undir báða vængi á undanförnum mánuðum og Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hafði þrýst á hann að gera það. Nú hefur lokaákvörðun verið tekin og Heimir Hallgrímsson, sem verið hefur aðalþjálfari við hlið Lagerbäck síðustu tvö ár og aðstoðarþjálfari árin þar á undan, mun taka alfarið við liðinu þegar mótinu í Frakklandi er lokið.
Lagerbäck fór yfir skipulag undirbúnings landsliðsins í aðdraganda mótsins, hvernig hópurinn í kringum liðið yrði samansettur og mikilvægi þess að liðið fari ekki fram úr sér í væntingum. Það skipti miklu máli að vera raunsær.
Á fundinum var einnig sýnd stikla úr nýrri heimildarmynd um íslenska landsliðið. Hana má sjá hér að neðan:
Heimir tók síðan við og sagði að lokakeppnin hefði gert ansi margt fyrir íslenska knattspyrnu. Hún hefði ollið gengishækkun á leikmönnunum, knattspyrnuninni og íslenskum þjálfurum. Ókostirnir við þennan mikla árangur væri sú að enginn muni lengur vanmeta Ísland. Heimir þakkaði líka Ólafi Jóhannessyni, og Pétri Péturssyni, sem þjálfuðu landsliðið áður en að Lagerbäck og Heimir tóku við. Hann sagði þá hafa gefið mörgum ungum leikmönnum tækifæri sem urðu lykileikmenn í liðinu sem komst á lokamót í fyrsta sinn. Sú reynsla sem þeir ungu leikmenn fengu hefði skipt miklu máli.
Hópurinn var svo tilkynntur. Þeir 23 leikmenn sem fara til Frakklands eru:
Markmenn:
Hannes Þór Halldórsson
Ögmundur Kristinsson
Ingvar Jónsson
Varnarmenn:
Ari Freyr Skúlason
Birkir Már Sævarsson
Ragnar Sigurðsson
Kári Árnason
Hörður Björgvin Magnússon
Haukur Heiðar Hauksson
Sverrir Ingi Ingason
Hjörtur Hermansson
Miðjumenn:
Gylfi Sigurðsson
Aron Einar Gunnarsson
Birkir Bjarnason
Jóhann Berg Guðmundsson
Emil Hallfreðsson
Arnór Ingvi Traustason
Theodór Elmar Bjarnason
Rúnar Már Sigurjónsson
Sóknarmenn:
Kolbeinn Sigþórsson
Alfreð Finnbogason
Jón Daði Böðvarsson
Eiður Smári Guðjohnsen
Einnig var greint frá því að sex leikmenn verða til taks ef eitthvað kemur upp á. Þeir eru: Viðar Örn Kjartansson, Ólafur Ingi Skúlason, Rúrik Gíslason, Gunnleifur Gunnleifsson, Hólmar Örn Eyjólfsson og Hallgrímur Jónasson.