Páll Magnússon fékk rúmlega 22 milljónir króna í starfslokagreiðslu þegar hann hætti störfum sem útvarpsstjóri á RÚV. Þetta kemur fram í svari Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Karli Garðarssyni, þingmanni Framsóknarflokksins.
Karl spurði Illuga um starfslokagreiðslur RÚV á rekstrarárunum 2013 til 2015. Hann spurði líka hversu margir starfsmenn hefðu fengið starfslokasamninga og hversu háar hæstu og lægstu greiðslur hefðu verið.
Í svarinu kemur fram að þrettán starfsmenn hafi fengið starfslokasamninga á þessu tímabili. Hæsta greiðslan var 22.380.144 krónur, sem var greiðslan til útvarpsstjóra. 13.377.129 krónur skiptust á milli hinna tólf starfsmannanna, og lægsta greiðslan nam tæplega 350 þúsund krónum.
Áður hafði verið greint frá því, þegar Páll sagði upp störfum í desember 2013, að hann hefði tólf mánaða uppsagnarfrest. Hann var með 1.220.777 krónur á mánuði og miðað við það hefði hann átt að fá tæplega 15 milljónir króna í sinn hlut.
Ekki er greint frá því í svari Illuga hverjir aðrir fengu starfslokagreiðslur eða hvernig þær skiptust á milli þeirra. Það er vegna þess að Ríkisútvarpið telur sér óheimilt að veita ráðherra upplýsingar um aðra starfsmenn en útvarpsstjóra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest þann skilning Ríkisútvarpsins að eingöngu útvarpsstjóri teljist til æðstu stjórnenda og upplýsingalög eigi því bara um hann en ekki aðra.
DV vildi fá upplýsingarnar
Málið á uppruna sinn hjá DV, sem fjallaði um hækkun á rekstrargjöldum vegna yfirstjórnar RÚV í janúar í fyrra, en breytingar voru gerðar á yfirstjórninni þegar Magnús Geir Þórðarson var ráðinn útvarpsstjóri eftir að Páll hætti störfum. Yfirstjórninni var sagt upp störfum og störfin voru auglýst að nýju í mars 2014. Það voru níu framkvæmdastjórar sem þá var sagt upp störfum.
DV krafðist þess að fá að vita heildarupphæð starfslokagreiðslna RÚV og hvernig þær skiptust niður á fyrrverandi framkvæmdastjóra. RÚV neitaði að veita þær upplýsingar og DV kærði málið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem komst að sömu niðurstöðu og RÚV.
Fyrirspurn Karls nær til lengra tímabils, eða rekstraráranna 2013 til 2015. Í svari Illuga kemur fram að af þeim 13 starfsmönnum sem fengu starfslokagreiðslur hafi einn verið endurráðinn.