Alls ætla 67,1 prósent svarenda í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið að kjósa Guðna Th. Jóhannesson sem forseta Íslands. Í gær var birt könnun frá Maskínu sem sýndi að Guðni Th. var með 67,2 prósent fylgi og í könnun Fréttablaðsins í byrjun viku mældist stuðningur við hann verða 69 prósent. Guðni Th. hefur því mælst með tæplega 70 prósent stuðning í öllum þremur könnunum sem framkvæmdar hafa verið síðan að hann tilkynnti forsetaframboð fyrir níu dögum síðan.
Í Morgunblaðinu kemur fram að Davíð Oddsson, ritstjóri blaðsins, myndi fá 17,4 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag. Davíð tilkynnti framboð sitt síðastliðinn sunnudag og hefur fylgi við hann mælst meira í hverri könnun sem gerð hefur verið síðan þá. Í Fréttablaðskönnuninni á miðvikudag sögðust 13,7 prósent styðja Davíð, í Maskínu-könnuninni í gær mældist fylgi hans eilítið hærra,eða 14,8 prósent, og í könnun Félagsvísindastofnunar mælist fylgið 17,4 prósent. Davíð opnaði kosningaskrifstofu sína í gær.
Andri Snær Magnason rithöfundur mælist með 7,8 prósent fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar, sem er minni stuðningur en hann mældist með í hinum könnunum tveimur. Athygli vekur að Sturla Jónsson mælist með fjórða mesta stuðninginn hjá Félagsvísindastofnun, myndi fá 1,8 prósent fylgi, en Halla Tómasdóttir mælist með 1,5 prósent. Halla hefur í öllum öðrum könnunum sem gerðar hafa verið að undanförnu mælst fjórði stærsti frambjóðandinn.
Fylgi við Guðna Th. mælist sem fyrr mjög jafnt milli kynja, aldurs- og menntunarhópa. Þá nýtur hann stuðnings nánast til jafns á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Davíð nýtur afgerandi meiri stuðnings hjá körlum en konum og hjá eldra fólki en því yngri. Þannig segjast 27 prósent þeirra sem eru eldri en 60 ætla að kjósa hann en tíu prósent þeirra sem eru undir þrítugu.Davíð nýtur auk þess minnst stuðnings hjá þeim sem hafa lokið háskólanámi og stuðningur á landsbyggðinni er umtalsvert meiri en í höfuðborginni.Málum er nánast algjörlega öfugt farið hjá Andra Snæ. Ungt fólk, með háskólanám sem býr á höfuðborgarsvæðinu myndar kjarnann í fylgi hans. Auk þess nýtur hann meiri stuðnings meðal kvenna en karla.
Alls voru 2.003 manns í úrtaki könnunar Félagsvísindastofnunar sem gerð var á netinu. 937 manns svöruðu eða 47 prósent þeirra sem leitað var til. Reynt var að tryggja að um þverskurð þjóðarinnar væri að ræða.
Framboðsfrestur til forseta rennur út á miðnætti 20. maí. Kosið verður laugardaginn 25. júní.