Margrét Indriðadóttir, fyrrverandi fréttastjóri fréttastofu Útvarps, er látin. Hún var fréttastjóri í 18 ár, en hóf störf á fréttastofunni árið 1949 og starfaði þar í 36 ár. Margrét var fyrsta konan á Norðurlöndunum til að gegna stöðu fréttastjóra ríkisfjölmiðils.
Margrét fæddist á Akureyri árið 1923, dóttir Laufeyjar Jóhannsdóttur og Indriða Helgasonar. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1943 og hóf að því loknu störf hjá Morgublaðinu. Þar var hún fengin til að skrifa á sérstaka kvennasíðu. Margrét ákvað afla sér menntunar í blaðamennsku, sem þá var fátítt meðal Íslendinga, og hélt til Bandaríkjanna þar sem hún lærði við Háskólann í Minnesota, er fram kemur á fréttavef RÚV.
Margrét hlaut fjölmargar viðurkenningar fyrir brautryðjendastarf í blaða- og fréttamennsku. Árið 2007 var Margrét sæmd heiðursmerki forseta Íslands, Fálkaorðunni, og árið 2014 hélt Blaðamannafélag Íslands málþing í Útvarpshúsinu við Efstaleiti veturinn til heiðurs henni. Yfirskriftin var Í fréttum er þetta helst... og fjölluðu þar nokkrir fyrirlesarar um fréttir fjölmiðla fyrr og nú.
Eiginmaður Margrétar var Thor Viljhálmsson rithöfundur, en hann lést í mars 2011. Synir þeirra eru Örnólfur Thorsson, íslenskufræðingur og forsetaritari, og Guðmundur Andri Thorsson, ritstjóri og rithöfundur.