Fulltrúar bandarísku sjóðanna Eaton Vance Corp. og Autonomy Capital LP á íslandi, sem sagðir eru eiga um 30 prósent af aflandskrónuhengju upp á ríflega 300 milljarða, telja boðað frumvarp um losun fjármagnshafta ganga gegn stjórnarskrárvörðum eignarétti sjóðanna með „bótaskyldum“ hætti.
Þetta kemur fram í umsögn sjóðanna við frumvarpið, sem birt hefur verið á vef Alþingis. Pétur Örn Sverrisson hrl. og Magnús Árni Skúlason hagfræðingur eru höfundar umsagnarinnar, fyrir hönd sjóðanna.
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að umsögnin hafi við verið viðbúin, en hún barst nefndinni í dag. Stjórnvöld leggja áherslu á að klára meðferð frumvarpsins svo það geti orðið að lögum eins fljótt og auðið er. Lokahnykkur í áætlun stjórnvalda um afnám hafta byggir á þeim.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er flutningsmaður frumvarpsins, en Davíð Þór Björgvinsson lagaprófessor, segir í umsögn sinni, að það standist stjórnarskrá og bann við mismunun.
Fjórþætt rök eru færð fyrir því í umsögn sjóðanna, að frumvarpið gangi of langt, en sérstaklega er áhersla lögð á það, að engar neyðaraðstæður séu uppi í hagkerfinu þessi misserin, sem réttlæti sérstaka eignaupptöku af sjóðunum. Staða efnahagsmála sé góð, óskuldsettur gjaldeyrisforði Seðlabankans nemi um 400 milljörðum króna, eða sem nemur um 20 prósent af landsframleiðslu. Kvik krónueign sé minni en sem þessu nemur og því ógni hröð útganga ekki hagkerfinu.
Orðrétt segir í umsögn sjóðanna, þar sem þessi fjórþættu rök eru upptalin:
„Í fyrsta lagi er bent á að sú eignarskerðing sem í frumvarpinu fellst getur á engan hátt talist almenn í þeim skilningi að hún nái til allra sem eins er ástatt um og flokkist þannig til þeirra skerðinga sem leiði ekki til bótaskyldu. Með frumvarpinu er í fyrsta sinn sett fram skilgreining á hugtakinu aflandskrónur. Í almennum athugasemdum að baki frumvarpinu segir svo um hugtakið: Um er að rœða eignir í eigu eða vörslu erlendra aðila sem eru líklegir til þess að leita útgöngu við losun fjármagnshafta með neikvœðum áhrifum á gengi íslensku krónunnar. Af þessu tilefni er bent á að umbjóðendur okkar hafa nú þegar lýst því yfir við stjórnvöld að þeir vilja halda áfram fjárfestingum sínum á íslandi og hafa sýnt þann vilja í orðum og verkum. Umbjóðendur okkar fá þannig ekki séð að þeir verði settir í sama flokk og aðrir „aflandskrónueigendur“ sem óska útgöngu við losun fjármagnshafta. Með öðrum orðum telja umbjóðendur okkar að staða þeirra sé sú sama og innlendra fjárfesta í þessu samhengi.
Í öðru lagi eru umbjóðendur okkar þeirrar skoðunar að með frumvarpinu sé ekki leitt í ljós að sérstakar aðstæður knýi á um þær aðgerðir sem frumvarpið boðar gagnvart umbjóðendum okkar. Jafnframt er ítrekað að umbjóðendur okkar hafa lýst því yfir að þeir vilja halda fjárfestingum sínum áfram hér á landi og m.a. óskað eftir undanþágu Seðlabankans í þeim efnum og fá þ.a.l. ekki séð að hinar sérstöku aðstæður eigi við í tilviki þeirra. Telja þeir þessa staðreynd enn fremur leiða til þess að skilyrði meðalhófsreglu teljist ekki uppfyllt í þeirra tilviki.
Í þriðja lagi er bent á að þrátt fyrir að frumvarpið feli ekki í sér beina yfirfærslu eignarétt, svo sem rakið er í athugasemdum, er það ekki skilyrði bóta samkvæmt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að eign sé látin af hendi í orðsins fyllstu merkingu, heldur getur ákvæðið einnig komið til skoðunar í þeim tilvikum þegar aðilum er með öllu fyrirmunuð venjuleg og eðlileg umráð eigna sinna, svo sem á við í tilviki umbjóðenda okkar. Eru þessi sjónarmið sem beitt hefur verið fyrir innlendum dómstólum í samræmi við dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.
Í fjórða lagi benda umbjóðendur okkar á að það er ekki rétt sem fram kemur í athugasemdum að baki frumvarpinu, þess efnis að breytingar á vörslu krónueigna sé ekki fallnar til þess að rýra verðgildi þeirra. Telja umbjóðendur okkar að í því felist brot gegn jafnræðis- og eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar enda felur frumvarpið það í sér að umbjóðendur okkar munu ekki hafa sama rétt til ávöxtunar fjárfestinga sinna hér á landi og innlendir aðilar.“
Gjaldeyrisútboð í næsta mánuði
Verði frumvarpið að lögum er áformað að Seðlabanki Íslands haldi gjaldeyrisútboð í næsta mánuði þar sem öllum aflandskrónueigendum verður gefinn kostur á að skipta aflandskrónueignum sínum í evrur. Frumvarpið miðar í einföldu máli að því, að stilla aflandskrónueigendum upp við vegg og þvinga þá til þátttöku í gjaldeyrisútboðinu, ella verði þeir fastir með fé sitt á neikvæðum vöxtum á sérstökum reikningum.
Þær aflandskrónueignir sem ekki verða nýttar í útboði Seðlabankans munu því sæta takmörkunum.
Í tæp átta ár hafa fjármagnshöftin „takmarkað áhættudreifingu í eignasöfnum innlendra aðila og heft möguleika fyrirtækja til að nýta samstarfsverkefni við erlenda aðila og ávöxtunartækifæri erlendis“ eins og það er orðað í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Efnahagslegt óhagræði sem af þessu hlýst fer vaxandi með tímanum.
Þessi liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta leggur grunninn að næstu skrefum í átt til losunar gjaldeyrishafta og munu þau snúa „að heimilum og fyrirtækjum á Íslandi“ segir í tilkynningunni.