Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sakar embættismenn sem starfa við innkaup hjá opinberum stofnunum ríkisins um lögbrot og spillingu. Í Vikulokunum á Rás 1 í morgun sagði Vigdís að embættismannaspillingin á Íslandi væri verst. Hún fullyrti að embættismenn væru að græða persónulega á innkaupum sem þeir gerðu fyrir hönd ríkisins. Þetta hafi hún heyrt frá fólki út um allt land. Hún sagði að fólk kæmi oft til hennar í ljósi starfs hennar og gæfi henni „tips“ um spillingu í kerfinu.
Vigdís nefndi dæmi um að embættismenn væru að kaupa inn tölvur fyrir skrifstofuna og tækju svo eina tölvu heim.
Þegar Helgi Seljan, þáttastjórnandi Vikulokanna, bað hana um að útskýra mál sitt nánar og nefna hvaða stofnanir um ræðir, sagðist Vigdís ekki ætla að gera það, heldur skrifa um þetta allt þegar hún hættir á þingi.
Þá setti Vigdís einnig út á að stofnanir væru með dýr húsgögn í húsakynnum sínum og nefndi þar stólinn Eggið, eftir danska hönnuðinn Arne Jacobsen, sem dæmi.