Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir að að sínu mati væri það „mjög álitlegt að byggja nýjan Landspítala annars staðar, t.d. á Vífilsstöðum.“ Þetta segir hann í svari við fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni Vinstri grænna.
Steingrímur J. spurði Sigurð Inga hvar hann áliti heppilegast að nýr Landspítali rísi og hvaða forsendur væru einkum fyrir þeirri afstöðu. Sigurður Ingi svaraði þessari spurningu ekki, en sagði aðeins að „fyrir liggur stefnumörkun Alþingis um endurnýjun og uppbyggingu Landspítala, sbr. þingsályktun nr. 45/143. Unnið er samkvæmt þeirri stefnumörkun.“
Steingrímur J. spurði svo að ef ráðherra teldi það koma til greina að reisa nýjan spítala annars staðar en við Hringbraut, líkt og forveri hans Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hvaða staðsetning það væri þá og með hvaða rökum. Sigurður Ingi sagði aðeins að það væri að hans mati mjög álitlegt að byggja nýjan spítala annars staðar, til dæmis á Vífilsstöðum. Hann rökstuddi þá skoðun sína ekki.
Sigmundur Davíð kom að minnsta kosti tvívegis fram með þá hugmynd að byggja nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut eins og Alþingi hefur samþykkt. Í mars síðastliðnum stakk hann upp á því að Vífilsstaðir yrðu fyrir valinu.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra gagnrýndi Framsóknarflokkinn harðlega fyrir vinnubrögðin sem viðhöfð voru þá, en hann heyrði fyrst af hugmyndum forsætisráðherra í fjölmiðlum. Hann hefur sagt að það sé alveg öruggt að Landspítalinn verði við Hringbraut. Alþingi hafi tekið þá ákvörðun með lögum árið 2010, og svo aftur með lögum 2013. Árið 2014 var svo gerð sérstök ályktun, sem Sigurður Ingi vísaði í í svari sínu nú. Auk þess hefur Kristján Þór sagt að uppbygging Landspítala við Hringbraut sé þegar hafin.