Gögn um þingrof, sem tengjast fundi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þáverandi forsætisráðherra og Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands þann 5. apríl síðastliðinn, eru ekki skráð í málaskrá ráðuneytisins. Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra við fyrirspurn frá Kristjáni Möller, þingmanni Samfylkingarinnar.
„Eru skjöl um þingrof og nýjar kosningar sem undirbúin voru í aðdraganda fundar með forseta Íslands 5. apríl sl. sem forseti hefur greint frá opinberlega eða önnur gögn tengd sama fundi skráð í málaskrá ráðuneytisins? Eru gögnin aðgengileg og þá hvar?“ spurði Kristján forsætisráðherra. Hann svaraði með einföldum hætti. „Fyrirspurnin felur í sér tvær spurningar, svarið við þeim er nei.“
Sigmundur Davíð fór á fund Ólafs Ragnars að morgni 5. apríl síðastliðinn. Áður en hann fór til Bessastaða setti hann inn færslu á Facebook-síðu sína þar sem hann sagðist ætla að „rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta“ ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru ekki reiðubúnir að styðja ríkisstjórn undir hans forsæti.
Ólafur Ragnar greindi svo frá því á blaðamannafundi að loknum fundinum með forsætisráðherra að sá síðarnefndi hefði óskað eftir því að forsetinn veiti honum heimild til að rjúfa þing. Ólafur Ragnar sagðist ekki hafa verið tilbúinn að veita slíka heimild.
Sigmundur Davíð sagði í kjölfarið að Ólafur Ragnar færi með rangt mál. „Formleg tillaga um þingrof var hvorki borin upp á fundinum né kynnt forseta eins og skilja mátti af ummælum forseta Íslands að fundi loknum. Forsætisráðherra tjáði forseta að hann hygðist bera þingrofstillögu formlega upp við forseta ef niðurstaða um framangreint lægi fyrir,“ sagði í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu.
Þessu hafnaði svo forsetinn, og sagði atburðarásina alveg skýra af hans hálfu og ljóst hvað Sigmundur hefði viljað. Hann nefndi því til sönnunar að embættismenn hefðu fylgt Sigmundi Davíð á Bessastaði með skjalatösku ríkisráðsins með í för. Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins og ritari ríkisráðs, sagði í kjölfarið að engin sérstök taska væri einkennd sem ríkisráðstaska. Hún sagði einnig að til þess að tillaga um þingrof væri formleg þyrfti forsætisráðherra að afhenda forsetanum undirritaða tillögu um þingrof og óska eftir áritun forseta.
Fréttin hefur verið uppfærð. Upprunalega var misritað að fyrirspurnin hefði verið frá Svandísi Svavarsdóttur.