Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis og Seðlabanka Íslands funduðu í gær með aðilum frá þeim bandarísku eignastýringarfyrirtækjum sem stýra vogunarsjóðum sem halda utan um stærstan hluta af 319 milljarða króna aflandskrónueignum hérlendis. Fundurinn fór fram í New York og þar á að svara þeim spurningum sem fulltrúar sjóðanna hafa um nýsamþykkt lög um þá afarkosti sem aflandskrónueigendum munu standa til boða í næsta skrefi íslenskra stjórnvalda að losun hafta. Því er um að ræða upplýsingafundi. Frá þessu er greint í DV.
Á fundinum var einnig greint frá því að aflandskrónuútboðið muni fara fram 16. júní. Þegar skilyrði þess verða kynnt opinberlega mun koma í ljós á hvaða gengi aflandskrónueigendum býðst að fara út úr íslensku hagkerfi. Samþykki þeir ekki að taka þátt í útboðinu munu lausir fjármunir þeirra verða vistaðir á sérstökum bankareikningum sem bera munu 0,5 prósent vexti, eða mun lægri vexti en aðrir innlánsreikningar.
Alþingi samþykkti á sunnudagskvöld frumvarp um aflandskrónur svonefndar sem Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram fyrir helgi. Frumvarpið miðar að því að tryggja efnahagslegan stöðugleika með lögum, í tengslum við gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands, sem ráðgert er í næsta mánuði, og leggja grunninn að lokahnykk áætlunar stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Um 319 milljarðar aflandskróna eru í eigu erlendra aðila, þar af meirihlutinn í eigu erlendra sjóða.
Frumvarpið var samþykkt með 47 atkvæðum. Sjö sátu hjá.