Eftirlaunagreiðslur úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) til fyrrverandi ráðherra og alþingismanna námu rúmum 510 milljónum króna á síðasta ári. Þar af voru rúmar 400 milljónir til fyrrverandi þingmanna og rúmar 100 til fyrrverandi ráðherra. Ráðherrar fá þó bæði greidd eftirlaun fyrir þingmennsku og ráðherrastarf.
231 fyrrverandi alþingismaður fékk greitt eftirlaun frá LSR árið 2015. Þar af voru 183 þingmenn sem fengu einungis eftirlaun fyrir þingmennsku, en 48 fyrrverandi ráðherrar sem fengu einnig greidd eftirlaun fyrir það starf.
Fyrrverandi ráðherrar fá 330.000 krónur að meðaltali
Eftirlaunagreiðslur til fyrrverandi þingmanna námu samtals rúmum 406 milljónum króna, sem gerir tæpa 1,8 milljón á ári á hvern að meðaltali, eða um 150.000 krónur á mánuði.
Eins og áður segir fengu 48 fyrrverandi ráðherrar eftirlaunagreiðslur frá LSR í fyrra, samtals um 105 milljónir króna. Það gerir að meðaltali um 2,2 milljónir króna á ári á hvern fyrrverandi ráðherra að meðaltali, eða rúmar 180 þúsund krónur á mánuði. Þeir fá einnig greidd eftirlaun fyrir þingmennsku og námu því eftirlaunagreiðslur til hvers fyrrverandi ráðherra í fyrra að meðaltali um 330.000 krónum á mánuði, eða tæpum fjórum milljónum á ári.
150 þúsund króna meðaleftirlaun hjá öðrum
Samkvæmt nýjustu ársskýrslu LSR fyrir árið 2015 greiddi lífeyrissjóðurinn alls 40,5 milljarð til 22.615 lífeyrisþega. Þetta gerir meðaltalsgreiðslur um tæpar 1,8 milljón á mánuði eða um 150 þúsund krónur á mánuði, eins og óbreyttir þingmenn eru að fá að meðaltali í eftirlaun. Þetta kemur fram í svari LSR við fyrirspurn Kjarnans um eftirlaunagreiðslur ráðherra og þingmanna.
Árið 2014 fengu 224 fyrrverandi þingmenn eftirlaun, samtals 388 milljónir króna, eða rúmlega 1,7 milljón á mann að meðaltali, sem gerir um það bil 145 þúsund krónur á mánuði. Þar af eru 50 fyrrverandi ráðherrar sem fengu sömuleiðis eftirlaunagreiðslur fyrir þau störf, um 110 milljónir alls. Það gerir um 2,2 milljónir á ári, eða tæpar 185 þúsund krónur á mánuði. Alls fengu þessir 224 einstaklingar greidd um 500 milljónir króna í eftirlaun árið 2014, sem eru um 10 milljónum minna heldur en í fyrra.
Ekki hægt að fá eftirlaun og vera á launum
Fyrrverandi ráðherrar og þingmenn fá greitt samkvæmt lögum númer 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Fram kemur í svari LSR að rétt sé að minna á að með lögum númer 12/2009 voru fyrrnefnd lög afnumin, en þegar áunnin réttindi skyldu halda sér. Taki menn annað starf á vegum ríkisins á meðan eftirlaunagreiðslur eru greiddar, koma þau laun til frádráttar. Með öðrum orðum þá er ekki hægt að fá greidd laun fyrir starf á vegum ríkisins ofan á eftirlaun.