Það gengur ekki upp til lengdar að hafa Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði, segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Þetta sagði hann í sérstakri umræðu um stöðu fjölmiðla á Íslandi, sem fór fram á þinginu í dag að beiðni Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata.
Rekstrarstaða fjölmiðla á Íslandi er áhyggjuefni, sagði Illugi. Hann sagði jafnframt að ekki væri komist undan því að ræða og taka afstöðu til þeirrar staðreyndar að Ríkisútvarpið sé á auglýsingamarkaði.
Það gangi ekki upp til lengdar að hans mati. Það verði að fara að vinna að því að taka RÚV af auglýsingamarkaði, það muni þó taka tíma og gerist ekki á einu misseri eða tveimur. Engu að síður þyrfti að ganga í þessi mál, vegna þess að rekstrarstaða fjölmiðla muni fara versnandi á næstu árum. „Þá hljótum við að horfa til fjölmiðlaumhverfis á Norðurlöndum, þar sem ríkisrekni fjölmiðillinn er ekki á auglýsingamarkaði.“