Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og forseti borgarstjórnar, ætlar að hætta í borgarstjórn í haust. Hún greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.
Sóley hyggst flytja til Hollands með fjölskyldu sinni, þar sem hún ætlar í meistaranám í uppeldisfræði. „Ég mun kveðja borgarstjórn eftir 10 viðburðarík ár, þakklát fyrir þá dýrmætu reynslu sem ég hef öðlast og stolt af þeim verkum sem ég hef fengið að koma til leiðar.
Reykjavík er frábær borg og verður stöðugt betri. Vinstri græn eiga sinn þátt í því og munu halda áfram að stuðla að sanngjarnari, grænni og femínískari borg þó ég bregði mér af bæ. Sömu sögu er að segja af meirihluta borgarstjórnar, fjölbreyttum en samstilltum hópi sem ég vona að eigi eftir að vinna vel og lengi saman. Og fyrst ég er byrjuð, þá er minnihlutinn svo sem ágætur á sinn hátt og samstarf allra borgarfulltrúa að jafnaði gott,“ segir Sóley meðal annars.
Hún segist þó ekki alveg hætt, verði borgarfulltrúi fram á haust og muni leggja sig fram um að koma sem mestu til leiðar á þeim tíma sem eftir sé. Hún sé svo ekki hætt í pólitík, því pólitíkin muni alltaf fylgja henni.
Líf Magneudóttir er næsta kona inn á lista Vinstri grænna í borginni og varaborgarfulltrúi. Hún tekur væntanlega sæti Sóleyjar í borgarstjórn í haust.