Í nýrri þjóðhags- og verðbólguspá hagfræðideildar Landsbankans er gert ráð fyrir að gengi krónunnar gagnvart evru mun styrkja umtalsvert á næstu árum, og fari í áttina að 120 krónum á næstu tveimur árum. Evran kostar nú 140 krónur, og hefur gengi krónunnar gagnvart henni styrkst nokkuð að undanförnu.
Góð skuldastaða
Þetta er töluverð breyting frá spá bankans í nóvember, en þá var ekki gert ráð fyrir jafn mikilli styrkingu. Ástæðan fyrir breytingu er verulega góð skuldastaða þjóðarbúsins erlendis, ekki síst eftir að hagfelld niðurstaða fékkst í málefni slitabúa föllnu bankanna.
Þá er einnig gert ráð fyrir áframhaldandi vexti í ferðaþjónustu, sem hefur veruleg áhrif á gjaldeyrisinnstreymi eflir útflutningstekjur. Gert er ráð fyrir að erlendir ferðamenn verið 2,2 milljónir á ári árið 2018, en spár gera ráð fyrir að þeir verði 1,6 milljónir á þessu ári. Í spánni er gert ráð fyrir að heildarútflutningur aukist um 7,1% á þessu ári en síðan dragi úr aukningunni. Áfram er gert ráð fyrir því að þróun útflutnings næstu ára markist að miklu leyti af vexti ferðaþjónustunnar. „Erlendum ferðamönnum muni fjölga um 35% á þessu ári, um 15% á næsta ári og um 10% árið 2018. Ef spáin gengur munu tæplega 2,2 milljónir ferðamanna koma til landsins árið 2018,“ segir í spá Landsbankans.
Kröftugur hagvöxtur
Hagfræðideild Landsbankans spáir að hagvöxtur á þessu ári verði 5,4% sem er talsvert meiri hagvöxtur en gert var ráð fyrir í þjóðhags- og verðbólguspá sem birt var í nóvember 2015. Áfram er gert ráð fyrir kröftugum hagvexti og að hagvöxtur verði að meðaltali 4,3% á árunum 2017 og 2018. Verðbólguhorfur eru nú taldar betri en áður og er gert ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 1,9% á þessu ári og verði að meðaltali 3,6% á næstum tveimur árum.
Hagfræðideildin segir að augljós þörf sé fyrir frekari uppbyggingu íbúða, en á næstu árum verði eftirspurn mun meiri en framboð, sem hefur áhrif á fasteignaverð til hækkunar. Frá árinu 2010 hefur raunverð íbúða í fjölbýli hækkað um meira en þrjátíu prósent á höfuðborgarsvæðinu, á meðan sérbýli hefur hækkað um tæplega 20 prósent.
Hagstofan gerir ráð fyrir 4,3 prósent hagvexti
Landsframleiðslan eykst um 4,3% árið 2016, 3,5% árið 2017 vegna einkaneyslu og fjárfestingar.
Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út þjóðhagsspá að sumri í ritröð sinni, Hagtíðindum. Spáin nær til áranna 2016 til 2021.
Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði 4,3% árið 2016, 3,5% árið 2017 og nærri 3% árlega árin 2018 - 2021. Innlend eftirspurn, fyrst og fremst einkaneysla og fjárfesting eru að baki hagvextinum fyrstu árin en árið 2016 er spáð 6,6% aukningu þjóðarútgjalda.
Afgangur verður af utanríkisviðskiptum allan spátímann, lítið eitt minnkandi í fyrstu þegar mestur kraftur er í einkaneyslu og fjárfestingu, en stöðugur eftir það.
Verðbólga hefur verið lítil síðustu ár, en búist er við að hún aukist seinni hluta ársins 2016 og að hún haldist nokkuð yfir verðbólgumarkmiði þar til líður á spátímann.