Þingflokkur Pírata vill að ríkisstjórnin segi upp samningi ríkis og kirkju um laun presta og kirkjujarðir. Þingsályktunartillaga þess efnis hefur verið lögð fram og eru allir þrír þingmenn flokksins flutningsmenn.
Þar er lagt til að ríkisstjórnin hefji undirbúning að uppsögn samkomulags við þjóðkirkjuna um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá árinu 1997. Þá er lagt til að stefnt verði að því að samkomulaginu og öðrum tengdum samningum verði endanlega slitið fyrir árslok 2020.
33,5 milljarðar frá ríkinu síðan 1997
Fram hefur komið í fréttum undanfarin ár að prestar sem nýta hlunnindi kirkjujarða sem þeir búa á fái samtals tugi milljóna króna árlega í arð af þeim. Í viðtali við Kastljós árið 2014 sagði Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, að þetta fyrirkomulag væri ekki sanngjarnt, einkum þegar haft er í huga að margar sóknir á landsbyggðinni eigi i fjárhagserfiðleikum.
Í fyrra hafði ríkið greitt rúmlega 33 milljarða króna til þjóðkirkjunnar á grundvelli samkomulagsins frá því að það tók gildi árið 1997. Þó hefur aldrei verið gert verðmat á jörðunum sem ríkið eignaðist með samkomulaginu og enginn listi er til yfir þær. Fram kom á mbl.is að litið sé á samkomulagið sem fullnaðaruppgjör á kirkjujörðunum en engu að síður er ríkið skuldbundið til að greiða af jörðunum ótímabundið samkvæmt því.
Ríkið ekki kannað lögmæti til fullnustu
Í greinargerð með þingsályktunartillögu Pírata segir að stærstan hluta 20. aldar hafi óvissa ríkt um eignarhald kirkjujarða. Þegar samkomulag milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar var undirritað 10. janúar 1997 hafi verið horft til álitsgerðar kirkjueignanefndar frá árinu 1984 og umfjöllunar um þær eignir sem þar voru teknar fyrir. Þá hafi ríkið ekki kannað til fullnustu lögmæti fyrri samninga, né heldur hvaða jarðir tilheyrðu þeim, matsverð þeirra og rekstraruppgjör var engu síður gerður samningur um áframhaldandi skuldbindingar ríkisins við þjóðkirkjuna.
Rúmur tími til verksins
Birgitta segir í pistli á síðu Pírata að flutningsmenn tillögunnar telja ljóst að ríkið sé löngu búið að greiða fyrir þær kirkjujarðir sem það fékk afhentar með samkomulaginu um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá árinu 1997. Ríkið hafi nú þegar greitt um 1,5 milljarð á ári vegna samkomulagsins.
„Í tillögunni er gert ráð fyrir rúmum tíma til verksins. Verði tillagan samþykkt kæmi það til kasta þingsins á næsta kjörtímabili að samþykkja þær lagabreytingar sem gera þarf til að umræddu samkomulagi ríkisins og þjóðkirkjunnar verði endanlega slitið,“ segir Birgitta.