Nýr formaður Samfylkingarinnar er Oddný Harðardóttir. Tilkynnt var um þetta nú rétt í þessu á landsfundi Samfylkingarinnar. Það var Páll Halldórsson, formaður kjörstjórnar, sem tilkynnti um niðurstöðu kosningar flokksmanna.
Kosningin var rafræn og fór fram dagana 28. maí til 3. júní. Í kjöri voru Magnús Orri Schram, Helgi Hjörvar,og Guðmundur Ari Sigurjónsson, auk Oddnýjar.
Alls voru greidd 3.877 atkvæði í kjörinu, 15 skiluðu auðu. Hlaut hún 59,9% atkvæða í þriðju hrinu talningarinnar. Engin breyting varð frá 1. hrinu talningarinnar samkvæmt formanni kjörstjórnar.
Í annarri hrinu var Oddný með 43,8% atkvæða, Magnús Orri með 32,5% og Helgi Hjörvar með 23,7%.
Í þriðju hrinu var Oddný svo með 59,9% og Magnús Orri með 40,1%.