Óhætt er að segja að efnahagshjólin í hagkerfinu snúist á fullu þessi misserin. Landsframleiðslan á fyrsta ársfjórðungi 2016 jókst um 4,2 prósent að raungildi borið saman við 1. ársfjórðung 2015, samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 8,3 prósent. Einkaneysla jókst um 7,1 prósent, samneysla um 0,1 prósent og fjárfesting um 24,5 prósent. Útflutningur jókst um 6,4 prósent en innflutningur töluvert meira, eða um 15,2 prósent.
Verðbólga hefur haldist undir 2,5 prósent markmiði í tvö ár, en hún mælist nú 1,7 prósent. Seðlabanki Íslands hefur sagt, að líkur standi til þess að hún muni aukast nokkuð á næstu misserum og verði jafnvel komin yfir þrjú prósent á næsta ári. Þá hefur kaupmáttur launa aukist um 11,6 prósent á einu ári, sem er með því allra mesta sem mælst hefur hér á landi á svo löngum tíma.
Þá hefur Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, enn fremur varað við því, að þensla verði ekki of mikil í hagkerfinu, en á næstu mánuðum stendur til að losa um fjármagnshöft og stíga stór skref í átt að því að opna fyrir fjárfestingar innlendrar aðila erlendis.
Aflandskrónuútboð, sem er mikilvægur liður í lokahnykk áætlunar um losun hafta, fer fram 16. júní, en um 300 milljarðar aflandskróna falla þar undir, sem að stórum hluta eru í eigu erlendra sjóða.
Á þessu ári gerir Hagstofa Íslands ráð fyrir 4,3 prósent hagvexti, miðað við árið í fyrra. Það er í sögulegu tilliti fremur mikill hagvöxtur. Á árinu 2017 er gert ráð fyrir 3,5 prósent hagvexti og árin 2018 til 2021, um þrjú prósent hagvexti á ári. Árleg landsframleiðsla Íslands var í fyrra um tvö þúsund milljarðar króna.