Ríkisstjórnin ætlar að setja lög á yfirvinnubann Félags íslenskra flugumferðastjóra. Þetta staðfestir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður Ólafar Nordal innanríkisráðherra, við Kjarnann.
Frumvarp til laga um kjaramál flugumferðastjóra var rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun, en það var eina málið á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Ef lög verða samþykkt þurfa flugumferðarstjórar að hætta öllum aðgerðum sínum strax, það er bæði yfirvinnu- og þjálfunarbanni.
Verið er að ræða málið við stjórnarandstöðuna núna. Mögulegt er að þingið verði kallað saman strax, en þar sem nefndir Alþingis eru enn að störfum ætti það ekki að vera flókið.
RÚV greinir svo frá því að samkvæmt frumvarpinu sé deiluaðilum gefinn frestur til 24. júní til að ná samningum, en takist það ekki verði skipaður gerðardómur til að úrskurða um laun flugumferðarstjóra.
Yfirvinnubannið hefur staðið yfir frá því í byrjun apríl, og það hefur haft þær afleiðingar að fjórum sinnum hefur næturumferð um Keflavíkurflugvöll legið niðri vegna veikinda vakthafandi flugumferðarstjóra. ISAVIA áætlar að um þrjú þúsund flug hafi þurft að breyta áætlunum sínum vegna kjaradeilunnar.