„Það kemur ekki á óvart að þessi leiðrétting sé gerð en hún segir ekki alla söguna,“ segir Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisstjóri og ráðgjafi í fjármálaráðuneytinu, um leiðréttinguna sem nú hefur birst á Vísindavef Háskóla Íslands, er varðar kostnað vegna Icesave-samnings sem kenndur er við Svavar Gestsson.
Vísindavefurinn hefur birt nýtt svar, eins og greint var frá í gær, við því hvað Icesave-samningarnir hefðu kostað íslenska ríkið hefðu þeir verið samþykktir. Hefðu samningarnir sem kenndir eru við Svavar Gestsson, verið samþykktir árið 2009 hefði ríkissjóður skuldað 140 milljarða króna. Fyrra svarið, sem birt var á Vísindavefnum í febrúar, sagði að kostnaðurinn hefði orðið 208 milljarðar. Skekkjan var því 68 milljarðar króna.
Indriði, sem hafði áður greint frá því í greinum að útreikningarnar í svarinu á vef Vísindavefsins væru rangir, segir leiðréttingu ekki vera fullnægjand á allan hátt. „Hún er tæknilegs eðlis og tekur tillits til atriða í samningunum sem fyrra svar hafði ekki gert. Hún er hins vegar ófullnægjandi að því leyti að hún svarar ekki á raunsæjan hátt hverju hefði mátt reikna með ef samningarnir hefðu verið samþykktir. Í svarinu er gengið út frá því að stjórnvöld hefðu setið aðgerðalaus þrátt fyrir að hafa tök á að gera ráðstafanir sem hefðu getað lækkað kostnað við samningana um tugi milljarða króna. Það er óraunhæft. Auk þess er ekkert mat lagt á þau áhrif sem tafir á frágangi málsins höfðu á efnahagsþróun o.fl.,“ segir Indriði.
Hersir Sigurgeirsson, dósent í fjármálum við viðskiptafræðideild HÍ, er höfundur beggja svara. Í inngangi að nýja svarinu segir að ekki hafi allar forsendur legið endanlega fyrir þegar útreikningarnir voru gerðir og birtir í febrúar, og ekki réttilega tekið tillit til þeirra í svarinu. „Þá gætti nokkurrar ónákvæmni í fjárhæðum sem leiddu til skekkju í lokamatinu,“ segir í inngangi svarsins.