Útvarp Saga, Síminn, ÍNN, 365 miðlar og Hringbraut hafa sent sameiginlega áskorun til stjórnarráðs Íslands og Alþingis þar sem þau skora á ráðherra og þing að gera „nauðsynlegar, málefnalegar og tímabærar breytingar á íslenskri löggjöf til þess að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði.“ Núverandi lagaumhverfi sé þannig að innlendir ljósvakamiðlar hafi vart möguleika til að halda starfsemi sinni áfram.
Í áskorun þeirra er kallað eftir því að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði, að aðkallandi breytingar verði gerðar á fjölmiðlalögum, að jafnræði verði komið á í skattalöggjöf í samræmi við það sem átt hafi sér stað erlendis og að stjórnvöld beiti sér fyrir ýmis konar álitamálum tengdum samkeppni. Þau álitamál sem til eru talin í áskoruninni eru að stjórnvöld ættu að skoða að jafna stöðu innlendra fjölmiðla í alþjóðlegri samkeppni, svo sem varðandi kaup á erlendu efni, að tryggja jafnan aðgang leyfisskyldra fjölmiðla að reglulegum fjölmiðlamælingum, að beita sé fyrir því að jafna stöðu innlendra línulegra sjónvarpsrása með íslenskt dagskrárefni hjá fjarskiptafyrirtækjum og öðrum dreifiveitum og að endurskoða ætti ákvæði áfengislaga þannig að auglýsa megi áfengi í íslenskum fjölmiðlum.
Undir áskorunina skrifa Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, Rakel Sveinsdóttir, fyrir hönd Hringbrautar, Ingvi Hrafn Jónsson, sjónvarpsstjóri ÍNN, og Orri Hauksson, forstjóri Símans.