Mannréttindadómstóll Evrópu hefur sent íslenskum stjórnvöldum bréf þar sem stjórnvöld eru krafin svara við spurningum um Al-Thani málið. Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson, sem fengu allir þunga dóma í málinu, kærðu það til Mannréttindadómstólsins fyrir ári síðan. Auk þess að kæra til dómstólsins fóru þeir allir fram á endurupptöku málsins hér á landi.
Í bréfinu sem stjórnvöld hafa nú fengið kemur fram að um forskoðun á umsókn fjórmenninganna sé að ræða. Þess er óskað að íslensk stjórnvöld svari fjórum spurningum um málið fyrir 10. október næstkomandi.
Þau eru beðin um að svara til um hæfi Árna Kolbeinssonar, sem var einn þeirra sem dæmdi í málinu, og hvort brotið hafi verið gegn hlutleysi með því að hann hafi dæmt í málinu.
Stjórnvöld eru spurð hvort brotið hafi verið á rétti fjórmenninganna til þess að hljóta sanngjarna meðferð fyrir dómi með því að þeir hafi ekki fengið að leiða þá Al Thani og sheikh Sultan fyrir réttinn.
Í þriðja lagi er spurt hvort brotið hafi verið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar með tilliti til aðgangs þeirra að gögnum málsins, rétt til að andmæla og hvort þeir hafi fengið nægan tíma til að undirbúa málsvörn sína.
Að lokum eru íslensk stjórnvöld spurð hvort friðhelgi einkalífs þeirra hafi verið brotin þegar símtöl við verjendur voru hljóðrituð og skoðuð.
Al-Thani
málið, sem er eitt umfangsmesta efnahagsbrotamál
sem komið hefur á borð dómstóla hér á landi, á rætur að
rekja til hlutabréfakaupa sheikh Mohammad Bin Khalifa
Al-Thani frá Katar hinn 22. september 2008 en félag
hans keypti 5,01 prósenta hlut í Kaupþingi banka fyrir
25,7 milljarða króna með láni frá bankanum.
Árni
Kolbeinsson var skipaður varadómari í
málinu að því er fram kemur þar. Málflytjendum
hafi verið tilkynnt í desember í fyrra að
eiginkona hans, Sigríður Thorlacius, hafi
setið í stjórn Fjármálaeftirlitsins
fram í janúar 2009. Fjármálaeftirlitið
var með Al Thani-málið til rannsóknar á þeim
tíma. Þá var óskað eftir því að málflytjendur
gerðu athugasemdir við setu Árna ef þeir hefðu þær, en
svo var ekki gert.
Eftir að dómur var genginn sögðu fjórmenningarnir hins vegar að fram hafi komið upplýsingar um að sonur Árna hefði starfað sem forstöðumaður lögfræðisviðs slitastjórnar Kaupþings frá 2008 og 2013. Þetta hafi verið nýjar upplýsingar sem ekki hafi verið upplýst um. Hagsmunir slitastjórnar Kaupþings af sakfellingu þeirra í málinu hafi verið augljósir.