Íbúðir eru að jafnaði talsvert skemur í sölu nú en á undanförnum tíu árum. Einungis tekur um sjö vikur (1,87 mánuð) að selja íbúðarhúsnæði miðað við veltu á fasteignamarkaði í apríl.
Einungis er hægt að finna eitt dæmi á undanförnum tíu árum, júní 2007, þar sem veltuhraði fasteignamarkaðarins var meiri. Þetta má lesa út úr hagvísum Seðlabanka Íslands, frá 29. júní síðastliðnum. Meðalsölutími íbúðarhúsnæðis hefur verið undir þremur mánuðum frá september 2015 og í kringum tvo mánuði frá síðustu áramótum.
Þá hefur hratt gengið á framboð eigna, sé rýnt í tölurnar. Þannig var framboð af sérbýliseignum á sölu ríflega 900 í apríl 2012, en fjöldinn var kominn niður í 320 í apríl á þessu ári. Sömu sögu er að segja af fjölbýliseignum. Þær voru tæplega 1.900 í apríl 2012 en voru um 900 í apríl síðastliðnum.
Mikill gangur hefur verið á fasteignamarkaði hér á landi að undanförnu, og hefur fasteignaverð hækkað nokkuð stöðugt. Þetta sést meðal annars á fasteignamati fyrir næsta ár.
Íbúðahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hækkar að meðaltali um 9,2% samkvæmt nýju fasteignamati sem Þjóðskrá kynnir í dag. Fasteignamatið gildir fyrir næsta ár, og er ætlað að endurspegla verðlag fasteigna í febrúar á þessu ári. Mesta hækkunin verður í Bústaðahverfi, um 20,1%. Í Fellunum í Breiðholti hækkar fasteignamatið um 16,9% og um 16,3% í Réttarholti.
Á þremur svæðum á höfuðborgarsvæðinu lækkar fasteignamatið milli ára, um 0,8% á Kjalarnesi, 3,5% í Garðabæ vestan Hraunholtsbrautar og um 4,1% á Arnarnesi í Garðabæ.
Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækka að meðaltali um 6,5% en fjölbýli hækka mun meira, um 11,7% að meðtaltali. Utan höfuðborgarsvæðisins er munurinn ekki eins mikill, eða 5,5% hækkun í sérbýli og 8,6% í fjölbýli.
Því er spáð að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu muni hækka nokkuð á þessu ári og því næsta, samkvæmt Peningamálum Seðlabanka Íslands, eða um tæplega 20 prósent.