Stjórnarskrárnefnd hefur skilað Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra tillögum sínum að breytingum á stjórnarskránni. Nefndin leggur til að sett verði inn almennt ákvæði um að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni, ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd og ákvæði þar sem lagt er til að 15% kosningabærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi. Ekki náðist samkomulag um ákvæði um framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu.
Þjóðareign á náttúruauðlindum
Nefndin skilaði forsætisráðherra þremur frumvörpum til stjórnskipunarlaga. Í frumvarpinu um þjóðareign á náttúruauðlindum er almennt ákvæði um að auðlindir í náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni.
„Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Þær ber að nýta á sjálfbæran hátt og til hagsbóta landsmönnum öllum. Ríkið hefur eftirlit og umsjón með meðferð og nýtingu auðlindanna í umboði þjóðarinnar,“ segir í frumvarpinu. „ Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja gæðin eða veðsetja.“ Þá eigi að jafnaði að taka „eðlilegt gjald fyrir heimildir til nýtingar náttúruauðlinda og landsréttinda sem eru í eigu íslenska ríkisins eða þjóðareign.“ Þá eigi að gæta jafnræðis og gagnsæis í veitingu nýtingarheimilda, og slíkar heimildir leiði aldrei til varanlegs eignarréttar eða forræðis.
Umhverfis- og náttúruvernd
„Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvílir sameiginlega á öllum og skal verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stuðlað skal að því að fjölbreytni náttúrunnar sé viðhaldið og vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður,“ segir í frumvarpinu um umhverfis- og náttúruvernd. Jafnframt kemur þar fram að almenningi sé heimil för um landið og „dvöl þar í lögmætum tilgangi. Ganga skal vel um náttúruna og virða hagsmuni landeigenda og annarra rétthafa.“
Þjóðaratkvæðagreiðslur með 15% undirskrifta
Í frumvarpinu um þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu hluta kjósenda er lagt til að fimmtán prósent kosningarbærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi. „Fjárlög, fjáraukalög, lög um skattamálefni og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum verða ekki borin undir þjóðina samkvæmt þessari málsgrein,“ segir í frumvarpinu og verða því þess konar lög ekki sett í þjóðaratkvæðagreiðslu með þessum hætti.
„Til þess að hnekkja lögum eða ályktunum samkvæmt þessari grein þarf meiri hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst fjórðungur kosningarbærra manna, að synja þeim samþykkis,“ segir í frumvarpinu, og því er gerð krafa um kosningaþátttöku.
Harma nauman tíma til að klára málið
Fulltrúar minnihlutans á þingi í nefndinni, þau Aðalheiður Ámundadóttir fyrir Pírata, Katrín Jakobsdóttir fyrir VG, Róbert Marshall fyrir Bjarta framtíð og Valgerður Bjarnadóttir fyrir Samfylkinguna, segja ljóst að tíminn sé orðinn naumur til að ljúka þinglegri meðferð stjórnarskrárbreytinga á kjörtímabilinu. „Það eru mikil vonbrigði að þessi vinna skuli ekki hafa gengið hraðar en sýnir mikilvægi þess að nýr meiri hluti á þingi forgangsraði því að ljúka þeirri vinnu sem hófst með þjóðfundi 2010 að afloknum kosningum í haust,“ segja þau í bókun sinni um niðurstöðuna.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson og Valgerður Gunnarsdóttir, koma einnig inn á óvissuna sem ríkir um framhaldið. „Í ljósi stjórnmálaástandsins er óvíst hvað nú tekur við þegar stjórnarskrárnefnd skilar forsætisráðherra niðurstöðum sínum í formi þriggja frumvarpa. Hvernig sem þróunin verður að því leyti árétta fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þá afstöðu sína að við frekari vinnu við þessi frumvörp og aðrar hugsanlegar tillögur til stjórnarskrárbreytinga verði áfram leitast við að ná sem víðtækastri sátt um niðurstöðurnar.“