Sífellt fleiri Íslendingar nota sterk verkjalyf að staðaldri. Árið 2014 fengu ríflega 22.000 Íslendingar ávísað Parkódín forte, en skammtur á hvern sjúkling af ávísunum af lyfinu fyrstu fjórum mánuðum ársins 2016 jókst um 17,5 prósent samanborið við sama tímabil árið 2006. Þetta kemur fram í grein frá embætti Landlæknis í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Sterk verkjalyf fundust í helmingi látinna
Lyfjateymi Landlæknis rannsakaði 36 dauðsföll á síðasta ári þar sem grunur lék á að einstaklingar hafi látist vegna lyfjaeitrunar. Í flestum tilfellum komu nokkur lyf við sögu, oft að áfengi meðtöldu. Ópíóðar, sem eru verkjalyf eins og kódein (Parkódín) og morfín, fundust í 19 af þessum 36 einstaklingum, eða í rúmlega helmingi. Metýlfenídat, eða rítalín, fannst í níu manns og í sex af þeim fundust einnig sterk verkjalyf.
Verkjalyfjanotkun hefur verið að aukast á Íslandi undanfarin ár, sem er öfugt við þróunina á hinum Norðurlöndunum. Notkun ópíóíða hefur meira en tvöfaldast á síðustu 20 árum og það er visst áhyggjuefni fyrir margra hluta sakir.
40 sinnum líklegri til að þróa með sér heróínfíkn
Þeir sem eru háðir sterkum verkjalyfjum eru 40 sinnum líklegri en aðrir til að verða heróínsprautufíklar. Óhóflegum ávísunum verkjalyfja er meðal þess sem er kennt um þann mikla heróínfaraldur sem geysar í Bandaríkjunum í dag, er fram kemur í greininni. Fjöldi þeirra sem lést af völdum heróínfíknar í Bandaríkjunum tvöfaldaðist á milli áranna 2011 og 2013.
Eins og segir í Læknablaðinu hefur heróín ekki náð fótfestu á Íslandi, en þeir sem glíma við sprautufíkn velja flestir metýlfenídat, eða rítalín, sem fyrsta kost.
Verkjateymi á heilsugæslu væri lausn
Þá kemur fram í greininni að margar rannsóknir hafi staðfest gagnsemi ópíóíða til að vinna á tímabundnum verkjum, en gagnsemi þeirra gegn langvinnum verkjum hefur ekki verið staðfest. Brýnt nauðsyn sé á að finna úrræði fyrir einstaklinga með langvinna verki utan Landspítalans og er bent á að ein lausn væri verkjateymi innan heilsugæslunnar.