Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, segir að Wintris-málið hafi verið vel undirbúin og skipulögð árás sem átt hafi sér langan aðdraganda. Í því hafi Ríkisútvarpið, sem taki til sín 3.600 milljónir á ári frá skattgreiðendum landsins, beinlínis leitt Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, í gildru. Þetta kemur fram í viðtali við Vigdísi í DV í dag.
Þar segir Vigdís að hún hafi kennt í brjósti um Sigmund Davíð þegar hún horfið á viðtalið fræga sem fréttamaður sænska ríkissjónvarpsins og Jóhannes Kr. Kristjánsson tóku við hann, og kostaði Sigmund Davíð á endanum forsætisráðherrastólinn. „Það kemur mér ekki við sem þegn í þessu landi hvað fólk gerir við bílana sína, húsin sín, sumarhúsin sín og peningana sína. EES-samningurinn gengur meðal annars út á frjálst flæði fjármagns. Þetta félag var stofnað löngu fyrir bankahrunið og allar lagalegar forsendur voru uppfylltar. Auk þess voru þau búin að borga tæpar 400 milljónir í skatta frá 2008 hér á landi. Hvað vill fólk þá meira?“
Í DV er Vigdís spurð hvort henni þyki mögulega siðlaust að koma peningum úr landi með þeim hætti sem forsætisráðherrahjónin fyrrverandi voru uppvís af. Vigdís segir að það hafi enginn verið að spá í siðferði á árunum fyrir hrun. „Útrásarvíkingarnir tæmdu íslensku bankana og skildu allt eftir í rjúkandi rúst og fengu svo afskrifaðar þúsundir milljarða. Eigum við eitthvað að ræða það? Svo er ráðist á þann mann sem kemur og ætlar að stóla upp og skúra gólfin eftir dansleikinn. Maður sem barðist með kjafti og klóm á móti kröfuhöfunum er tekinn niður sem sakamaður í öllum þessum snúningum frá bankahruni, en hinir eru allir frjálsir ferða sinna. Enginn annar flokkur hefur djöflast jafn mikið í kröfuhöfunum og Framsóknarflokkurinn og mér finnst þetta ósegjanlega ósanngjarnt.“
Vigdís, sem sjálf hefur tilkynnt að hún ætli ekki fram í næstu kosningum, segir að hún hafi viljað að Sigmundur Davíð sæti áfram sem forsætisráðherra. Hann hafi beðist afsökunar og engin lög brotið. „Sigmundur verður að taka ákvörðun um hvort hann gefur kost á sér áfram í formennsku. En ef ég hugsa um þetta á mannlegum nótum þá er ég alveg hissa á að Sigmundur hafi ekki bara einn góðan veðurdaginn staðið upp og sagt „fokkjú, þið kunnið ekki gott að meta“.“ Í viðtalinu kemur þó fram að Vigdís hafi stutt Höskuld Þórhallsson í formannskjöri Framsóknarflokksins, þegar hann tapaði og Sigmundur Davíð var kjörinn formaður.
Vigdís hefur undanfarið boðað að hún og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, muni birta upplýsingar um það sem þau kalla seinni einkavæðingu bankanna, þegar samið var við kröfuhafa föllnu bankanna um að þeir myndu eignast hlut í þeim. Vigdís segir að hún sé búin að „djöflast“ í málinu frá 2012, nú liggi öll svör fyrir og niðurstaða sé komin. Og hún segir að þetta verði sprengja. „Stærri en Icesave 1, sem hristi nú duglega upp í fólki.“>