Velta í virðisaukaskyldri starfsemi hefur aukist um 272 milljarða króna á síðustu tólf mánuðum. Frá byrjun maí til aprílloka 2014-2015 var hún 3.615 milljarðar króna en á sama tímanbili 2015-2016 var veltan orðin 3.887 milljarðar króna. Frá þessu er greint í nýjum tölum Hagstofu Íslands. Ljóst er að auknar tekjur ríkisins vegna þessa hlaupa á tugum milljarða króna.
Tvær meginástæður eru fyrir aukningunni. Í fyrsta lagi tóku breytingar á lögum um virðisaukaskatt gildi um síðustu áramót og nokkrar atvinnugreinar sem áður voru undanþegnar virðisaukaskatti gerðar skattskyldar. Þar ber helst að nefna farþegaflutninga aðra en áætlunarflutninga og þjónusta ferðaskrifstofa. Í öðru lagi hafa umsvif þessara atvinnugreina aukist mikið undanfarin ár.
Skattþrepin i virðisaukaskatti eru tvö, ellefu prósent og 24 prósent. Ferðaþjónustan dreifist á bæði skattþrepin eftir eðli. Útleiga á hótel- og gistiherbergjum og fólksflutningar er þannig í lægra skattþrepinu og það er sala veitingahúsa á tilreiddum mat líka, þar með talin sala áfengis og áfengra drykkja. Velta vegna fólksflutninga á milli landa eru hins vegar undanþegin virðisaukaskatti en þóknun ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjenda og ferðafélaga fellur undir hærra skattþrepið.
Virðisaukaskattskyld velta í rekstri gististaða og veitingarekstri jókst um 23 prósent á milli ára, í flokknum sem farþegaflutningar heyra undir jókst veltan um 17 prósent og í flokknum sem þjónusta ferðaskrifstofa heyrir undir jókst hún um 39 prósent.
Fjöldi ferðamanna sem heimsækir Ísland ár hvert hefur aukist gríðarlega hratt á undanförnum árum. Árið 2010 var heildarfjöldi erlendra gesta 489 þúsund en í fyrra var hann 1.289 þúsund. Spár gera ráð fyrir að fjölgun þeirra haldi áfram og að þeir verði rúmlega 1,6 milljónir í ár. Verði það raunin liggur fyrir að fjöldi ferðamanna sem heimsækir Ísland hafi rúmlega þrefaldast á sjö árum.