Grundvallarskipulag og uppsetning búvörusamninganna sem gerðir voru í febrúar verður að standa, að mati Sindra Sigurgeirssonar, formanns Bændasamtakanna. Bændur munu því ekki una því ef Alþingi gerir grundvallarbreytingar á honum, til dæmis hvað varðar gildistíma samningsins eða að lækka þær greiðslur sem hann segir til um. Sindri segir að sú staða sem er uppi í dag, þar sem samningarnir sæta harðri gagnrýni, sé tilkomin vegna þess að ráðuneyti landbúnaðarmála vann ekki málið sín megin á nægilega opin hátt með þinginu. „Þetta er spurning um umboð viðsemjandans hinum megin frá.“ Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Blaðið greindi frá því í gær að ekki væri meirihluti fyrir gerðum búvörusamningi á Alþingi sem stendur og fyrir liggur að gerðar verði breytingar á honum í meðförum þingsins. Frétt blaðsins byggði á samtölum við þingmenn og segar þar að margir þingmenn stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, muni ekki samþykkja samninginn að óbreyttu.
Búvörusamningurinn er einnig til umfjöllunar í Morgunblaðinu í gær. Þar var rætt við Harald Benediktsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og fyrrum formann Bændasamtaka Íslands. Haraldur sagði þar að Alþingi hafi í raun ekki stöðu til að breyta samningnum verulega. „Ég held að það skipti miklu máli að menn átti sig á að þetta eru tveir stuttir samningar inni í ramma. Menn hafa núna miklu meiri tök á að bregðast við. Ef það er búið að skekkja stöðu þessa hóps er afstaða mín að það verði að endurskoða samninginn með tilliti til þess.“
Búvörusamningarnir eru samningar ríkisins við bændur. Þeir snúa bæði að landbúnaðarlögum og starfsskilyrðum við framleiðslu grænmetis, kindakjöts og nautgripaafurða. Nýjustu samningarnir eiga að gilda í tíu ár, til 2026, en möguleiki er gefinn fyrir endurskoðun á samningstímanum, árin 2019 og 2023. Fulltrúar ríkis og bænda undirrituðu samningana 19. febrúar.
Greiðslur samkvæmt samningunum nema um 13,8 milljarða króna árið 2017 en enda í 12,7 milljörðum króna árið 2026 við lok samnings. Þetta gera um 132 milljarða alls á samningstímanum. Búvörusamningarnir eru líka verðtryggðir. Árleg framlög miðast við forsendur fjárlaga fyrir árið 2016, en taka árlegum breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga. Ef þróun meðaltalsvísitölu neysluverðs verður hins vegar önnur en verðlagsforsendur fjárlaga á árinu skal leiðrétta mismuninn í fjárlögum næsta árs. Hér er því um eins konar tvöfalda verðtryggingu að ræða.
Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherslu á að búið verði að samþykkja samninganna áður en að kosningar, sem boðaðar hafa verið í haust, verði haldnar.