Það þarf ekki að reisa tvær Kárahnjúkavirkjarnir til að framleiða orku fyrir raforkusæstreng til Bretlands, Bretar hafa nú staðfest að þeir eru tilbúnir að greiða með orku frá Íslandi sem yrði flutt til Bretlands um strenginn og þjóðhagsleg arðsemi af lagningu strengsins fyrir hvort land fyrir sig yrði 25-30 milljarðar króna. Þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Skýrsla um kostnaðar- og ábatagreiningu á lagningu sæstrengs milli Íslands, sem unnin var af Kviku í ráðgjafafyrirtækið PÖYRY, var kynnt í gær. Samkvæmt henni, þá eru vísbendingar um að lagning 800 til 1.200 km. sæstrengs kunni að reynast bæði Íslands og Bretlandi þjóðhagsleg og viðskiptalega arðsöm. Forsenda þess virðist þó vera að bresk stjórnvöld séu reiðubúin að styðja við verkefnið líkt og þau styðja í dag þarlenda nýja endurnýjanlega raforkuvinnslu.
50 til 60 milljarðar króna á ári í arðsemi
Landsvirkjun hefur lengi haft áhuga á að kanna möguleika þess að bæta sæstreng við sem viðskiptavini fyrirtækisins. Hörður skrifaði til að mynda grein í Morgunblaðið fyrir rúmu ári þar sem hann sagði sæstrenginn vera mjög áhugaverðan kost.
Hörður segir skýrslu Kviku og PÖYRY svara mörgum spurningum. Þar komi til að mynda fram að þjóðhagsleg arðsemi yrði 50 til 60 milljarðar króna sem myndi skiptast til jafns milli þjóðanna tveggja, Íslands og Bretlands. Þá sé búið að borga mjög viðunandi arðsemi á allar framkvæmdir í báðum löndum og taka tillit til kostnaðarverðsþátta, svo sem hækkana á rafmagnsverði til fyrirtækja og heimila, sem lækkar ávinninginn. „Okkar grundvöllur var að fá það staðfest að Bretar væru tilbúnir til að nýta sér styrkjakerfið sem þeir hafa fyrir orkuvinnslu fyrir verkefnið, en Bretar eru þegar að greiða með allri orku sem er til í Bretlandi. Það fékkst staðfest.“
Pólitísk ákvörðun
Í fréttum í gær var niðurstaða skýrslunnar sögð vera sú að virkja þyrfti á við tvær Kárahnjúkavirkjanir til að búa til orkuna sem sæstrengur myndi kalla á. Hörður segir þá ályktun ekki byggja á niðurstöðu skýrslunnar að neinu leyti. „Samkvæmt miðsviðsmynd skýrslunnar þarf um 1500 megavött til. Stór hluti þess afls - Um það bil ein Kárahnjúkavirkjun - myndi koma úr bættri nýtingu. Umhverfisáhrif þess yrðu engin. Þá myndu líka koma til smærri virkjanir í vatnsafli, vindi og jarðvarma sem myndu selja inn á kerfið, en væri að öðrum kosti ekki hagkvæmt að gera. Í þriðja lagi væri um hefðbundna virkjanakosti að ræða og úr þeim þyrftu að koma um 250 megavött. Það er álíka stórt og Hrauneyjafossvirkjun, en mun minna en Kárahnjúkavirkjun. Að okkar mati er því ekki rétt að leggja þetta svona upp eins og gert var.“
Hörður leggur þó áherslu á að það sé alltaf pólitísk ákvörðun hvort ráðist verði í lagningu sæstrengs eða ekki. „Það á eftir að fara fram mikil umræða um þetta mál en skýrslan er gott innlegg í þá umræðu. Ég myndi segja að það þyrfti að meta þá valkosti sem Íslendingar hafa fyrir sína orkunotkun. Sæstrengur breytir því ekki hvað við ákveðum að virkja í hefðbundnum virkjanakostum. Það er ákvörðun sem stjórnvöld taka með rammáætlunarferli og svo pólitískum ákvörðunum.“